Mótmælandi fær ekki skaðabætur

Búsáhaldabyltingin.
Búsáhaldabyltingin. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af dómkröfum konu sem krafðist þriggja milljóna króna skaðabóta vegna harðrar framgöngu lögreglu við hana, meðal annars í Búsáhaldabyltingunni.

Konan höfðaði málið vegna tveggja aðskilinna atvika. Fyrra atvikið átti sér stað þann 20. janúar 2009, þegar Alþingi var að koma saman eftir jólaleyfi og fjölmennur útifundur fór fram á Austurvelli. Lögregla handtók nokkra sem ekki fóru að fyrirmælum um að halda sig frá dyrum og gluggum Alþingishússins. Konan var meðal þeirra sem handtekin var. Hún sagði að sér hafi verið hrint fast á glervegg við handtökuna og eftir það komið fyrir í bílakjallara undir Alþingishúsinu. „Hafi handteknum einstaklingum verið gert að sitja þar á gólfi gegnt hvert öðru í gleiðri stöðu þannig að fætur krossuðu fætur annarrar handtekinnar manneskju.“

Konan sagði frelsissviptingu þessa hafa verið óréttmæta þar sem hún hafi þá, með friðsamlegum hætti, verið að tjá pólitískar skoðanir sínar. Lögreglan mótmælti þessum málflutningi konunnar sem sagði konuna hafa hafa hindrað störf lögreglu við að verja Alþingishúsið. Þá hafi hún gengið hvað harðast fram við að stofna þar til uppþota og gera aðsúg að lögreglu.

Síðara atvikið var vegna handtöku sem átti sér stað í maí sama ár. Kom fram af hálfu lögreglumanna að konan hafi haft sig mjög í frammi og í engu sinnt fyrirmælum þeirra um að leyfa lögreglu að sinna starfi sínu og að endingu hafi hún veist að þeim og hún þá verið handtekin á vettvangi. Af hálfu konunnar er þessum atvikum hins vegar lýst svo að hún hafi gert athugasemdir við framferði lögreglunnar gagnvart vini sínum, en fyrir vikið sætt sjálf harkalegri meðferð og handtöku þar sem hún hafi verið keyrð niður í jörðina og snúið upp á hendur hennar fyrir aftan bak á meðan annar lögreglumannanna hafi rekið hné harkalega í bak hennar við handtökuna. 

„Engar skýringar hafi verið gefnar í lögregluskýrslu á því hvers vegna svo miklu valdi hafi verið beitt í þessu máli né hvers vegna svo mjög hafi dregist að sleppa stefnanda úr haldi.“

Ríkið krafðist þess aðallega að verða sýknað af kröfum konunnar og henni yrði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara var þess krafist að kröfur konunnar yrðu stórlega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

„Þótt ekki sé að efa að ofanlýst samskipti við lögregluna hafi sannarlega hlotið að vera þungbær reynsla fyrir stefnanda liggur þó ekkert haldbært fyrir í málinu um að hún hafi sannanlega borið líkamlegan eða sálrænan skaða af,“ segir í dómnum. Ekki var unnt að fallast á kröfur konunnar og var ríkið því sýknað.

Búsáhaldabyltingin.
Búsáhaldabyltingin. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert