„Sexting er að fá sent eða deila með öðrum kynferðislegum myndum og eða texta á rafrænu formi. Þetta er mun algengara en flesta grunar og enn algengara meðal unglinga, samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var í Bandaríkjunum,“ sagði Margrét K. Magnúsdóttir, sálfræðingur og sérhæfður rannsakandi í Barnahúsi, á Barnaverndarþingi fyrr í dag.
Margrét sagði mikla hættu fylgja því að senda og deila myndum sem þessum þar sem sendingin er ekki afturkræf. Þá sagði hún fáa átta sig á því að myndirnar eru í raun varðveisla og dreifing á barnaklámi, þegar börn eru 15 ára og yngri og nakin á myndunum.
Margrét talaði um sexting sem áhættuhegðun sem ber að tilkynna til Barnaverndarnefndar, en Barnahús hefur komið komið upp sérstökum gagnagrunni til að fylgjast með málum sem þessum. „Þetta er ný birtingamynd af kynferðisofbeldi og það má vissulega vera meiri áhersla lögð á fræðslu í þessum málum,“ sagði hún. Þá sagði hún afleiðingarnar geta verið mjög alvarlegar fyrir fórnarlömb, en auk stríðni og einelti fylgi hótanir oft sendingum slíkra mynda. „Hótanir eru mjög algengar og þetta hefur alvarlegar sálrænar afleiðingar.“
Sýnt var viðtal við baráttukonuna Tinnu Ingólfsdóttur, þolanda „sexting“ í kjölfar innleggs Margrétar. Viðtalið var birt í Íslandi í dag í maí sl. en þar opnaði Tinna sig um reynslu sína. Tinna var þrettán ára gömul þegar hún tók af sér nektarmyndir og sendi til manna sem hún taldi vina sinna, en þær komust síðar í dreifingu á internetinu. Tinna skrifaði einnig pistil á vefsíðuna Freyjur, en hann vakti talsverða athygli í netheimum.
Tinna lést í sama mánuði og þátturinn var birtur, og var hennar minnst af gestum þingsins. „Það er stolt mamma sem situr hér í dag,“ sagði Inga Vala Jónsdóttir, móðir Tinnu, en hún ávarpaði salinn í kjölfar myndbandsins. „Ég er þakklát fyrir það að á síðustu viku lífsins hafi hún miðlað þessari reynslu. Mér finnst hún góð fyrirmynd.“
Inga talaði um félagslega útilokun sem Tinna varð fyrir, og sagði það ljóst að félagsþrýstingur og það að hafa lélega sjálfsmynd hafi gríðarleg áhrif á ungt fólk til athafna sem þessara. Hún sagðist þó glöð að Tinna hafi fengið þá athygli sem hún fékk til að vekja máls á efninu. „Hún hafði þor og kjark til að segja sína meiningu og gerði það eftirminnilega.“
Í viðtalinu talaði Tinna um það að „krakkar sem langar að eiga vini og langar að strákarnir séu skotnir í sér“ væru vísir til að senda nektarmyndir, en það væri þó ekki á þeirra ábyrgð að myndirnar færu í dreifingu. „Við þurfum nefnilega ekki bara að kenna fólki að senda ekki af sér nektarmyndir, við þurfum líka að kenna fólki að ef það fær slíkar myndir í hendurnar þá ber það ábyrgð á því að þær séu ekki misnotaðar.“