Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur sent Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætis- og dómsmálaráðherra fyrirspurn um störf bresks lögreglumanns á Íslandi. Össur óskar eftir skriflegu svari dómsmálaráðherra.
Í fyrirspurninni spyr Össur meðal annars hvort lögreglan eða önnur stjórnvöld hafi með einhverjum hætti, á árunum 2003–2011, upplýst um að hingað kynni að koma eða hefði komið flugumaður, breskur lögreglumaður að nafni Mark Kennedy, sem væri eða hefði verið ætlað að afla upplýsinga um aðgerðir aðgerðasinna og/eða umhverfissamtaka.
Fram hefur komið að Kennedy tók þátt í aðgerðum umhverfisverndarsinna gegn Kárahnjúkavirkjun á Austurlandi árið 2005. Kennedy komst í dulargervi inn í raðir breskra aðgerðasinna.
Össur spyr hvort lögregla eða önnur stjórnvöld hafi haft upplýsingar um að lögreglumaðurinn dveldi eða hefði dvalið á Íslandi. Þá spyr hann hvort lögreglan hafi haft vitneskju um það sumarið 2005 að flugumaður væri í hópi aðgerðasinna og/eða umhverfissamtaka sem þá störfuðu á Íslandi.
Loks spyr Össur hvort breski lögreglumaðurinn hafi starfað á Íslandi sumarið 2005 með heimild lögreglunnar eða annarra stjórnvalda og hvort upplýsingasöfnun hans hafi verið lögmæt.
Hér má sjá fyrirspurn Össurs í heild.