„Ég veit ekki hvað Framsókn finnst en mér hefði satt best að segja fundist hálfskrýtið ef við hefðum hætt þessu þegar ég varð borgarstjóri,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, en fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í menningar- og ferðamálaráði, Ingvar Jónsson, óskaði nýverið eftir upplýsingum um hvort einhver borgarfulltrúi hefði þegið fjárhagslegan eða efnislegan styrk vegna vöfflukaffis frá Reykjavíkurborg síðastliðna Menningarnótt.
Viðkomandi fulltrúi vísar í kostnaðarlið sem fram kemur í sundurliðun á kostnaði frá skrifstofu Menningar og ferðamálasviðs.
„Vöfflukaffi 285.000. Efniskostnaður: Deig, kaffi, kókómjólk og rjómi fyrir þá sem vilja bjóða upp á vöfflukaffi heima hjá sér. 10 aðilar tóku þátt í ár.“
Dagur B. Eggertsson hefur boðið heim í vöfflukaffi á Menningarnótt í hátt í áratug og er það hluti af verkefni Höfuðborgarstofu. Hann segir jafnframt að hans þátttaka í verkefninu hafi aldrei verið leyndarmál.
„Höfuðborgarstofa auglýsir eftir íbúum sem vilja taka þátt og leggur þeim til hráefni. Þetta hefur alltaf verið opinbert og aldrei farið leynt. Við höfum einfaldlega tekið þátt á sömu forsendum og aðrar fjölskyldur í hverfinu. Fólk bætir auðvitað ýmsu við, og til að spara Framsóknarflokknum sporin þá vil ég upplýsa að við höfum þegið miklu meiri hjálp en þetta: Siggi bakari í Bernhöfts hrærir alltaf út fyrir okkur deigið, mamma og pabbi, móðursystur mínar, fjölskylda og vinir leggja iðulega fram hjálparhönd við að taka á móti gestum. Við fáum á hverju ári lánuð 10 vöfflujárn frá vinum og samstarfsfólki. Og þegar vöfflubakstri lýkur þá hjálpumst við að við að þrífa og við Arna eldum ofan í sjálfboðaliðana,“ segir Dagur í færslu sinni. Að sama skapi birtir hann ljósmynd, sem sjá má hér að neðan, af sér í faðmi gesta vöfflukaffisins í ár.