Reynsla síðustu ára hefur sýnt að Íslendingar hefðu ekki staðið betur að vígi eftir efnahagshrunið ef Ísland hefði tekið upp evru. Þvert á móti hefur sá möguleiki að geta fellt gengi krónunnar sýnt gildi sitt. Þetta er mat Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.
Forsetinn telur jafnframt að sýna þurfi þolinmæði þegar baráttan fyrir lýðræði í ríkjum sem búa við ólýðræðislegt stjórnarfar er annars vegar. Það hafi tekið Evrópu og Bandaríkin langan tíma að festa hornsteina lýðræðisins í sessi.
Ólafur Ragnar sótti Clinton-heimsþingið í New York og gaf við það tækifæri Danielu Cambone, blaðakonu fréttavefjarins Kitko News, kost á viðtali. Upptöku af viðtalinu má sjá hér.
Fylgir hér með endursögn og lausleg þýðing úr ensku.
Margvíslegur lærdómur af endurreisn Íslands
Forsetinn segir hægt að draga margháttaðan lærdóm af glímu Íslendinga við efnahagshrunið. Þá vék hann að mikilvægi þess að Íslendingar skyldu ekki fara í einu og öllu eftir hinum efnahagslega rétttrúnaði, hinum venjubundnu viðhorfum háskólafólks, afhafnamanna og stjórnmálafólks á Vesturlöndum, sem hann telur hafa ríkt í upphafi fjármálakreppunnar, þegar íslenskt efnahagslíf hrundi á haustdögum 2008.
„Það er mikilvægt þegar glímt er við áföll að nálgast hlutina með opnum huga, að láta ekki hinn venjubunda rétttrúnað um hvað beri að gera vera ráðandi í gjörðum okkar. Þegar horft er til Íslands og hvernig við höfum náð bata á síðustu sex árum, meiri efnahagsbata en nokkurt annað ríki í Evrópu sem glímt hefur við fjármálakreppu, er einkar áhugavert, hvað varðar margar undirstöður hinna venjubundnu viðhorfa á Vesturlöndum á síðustu 30 árum um hvernig takast á við fjármálakreppur, er að við skyldum ekki nýta þessar undirstöður í stefnumótun okkar. Þess í stað gerðum hlutina á mjög frábrugðinn hátt.
Eins og til dæmis að setja ekki fé í bankanna. Við tókum upp gjaldeyrishöft. Við leyfðum almenningi á lýðræðislegan hátt að kjósa um hvort skattgreiðendur ættu að taka á sig skuldir fallins íslensks banka erlendis. Við gerðum margt á annan veg, til dæmis með því að skera ekki niður ríkisútgjöld í anda rétttrúnaðarins þegar fjármálakreppan skall á. Niðurstaðan er sú að þetta reyndist vera miklu árangursríkara en hin hefðbundna leið rétttrúnaðarins. Erfiðleikarnir á Íslandi, sem urðu í kjölfar efnahagskreppunnar, hafa einnig gefið okkur, og heimsbyggðinni allri, tækifæri til að sjá hvernig við tökumst á við slíka kreppu á alveg nýjan hátt.“
Óhefðbundin leið Íslands bar meiri árangur
Forsetinn er þá spurður hvaða lærdóm Bandaríkjamenn geti dregið af Íslendingum, nú þegar nýjustu lotunni í örvunaraðgerðum Seðlabanka Bandaríkjanna er að ljúka. Svarar forsetinn því þá til að margir hafi gefið Íslendingum afleit ráð eftir hrunið. Hann geti aðeins lýst reynslu Íslendinga.
„En ég ætla ekki að segja Bandaríkjamönnum, eða nokkru öðru landi, hvað beri að gera. Sérhvert ríki og sérhver stjórnvöld þurfa að finna það út á eigin spýtur. Það sem Ísland – og ég – getur gert er að draga saman dæmi, okkar reynslu, og að vissu marki hvernig Ísland er kennsludæmi, og láta aðra draga sínar eigin ályktanir. Kjarninn í þessum lærdómi er sá að með því að gera hlutina á annan veg en aðrir höfum við náð að reisa við efnahagslífið hraðar og á skilvirkari hátt en nokkurt ríki í Evrópu sem hefur gengið í gegnum fjármálakreppu.“
Augnabliksstuðningur við ESB-umsókn
Blaðakonan víkur því næst að erfiðleikunum á evrusvæðinu og efasemdum um lífvænleika evrusamstarfsins. Spyr svo hvort Ísland hafi í hyggju að ganga í Evrópusambandið.
„Þegar bankarnir féllu var augnablik í sögu okkar þegar sú skoðun átti mikið fylgi að ef til vill hefði okkur farnast betur ef við hefðum verið hluti af Evrópusambandinu og evrusvæðinu. Þar af leiðandi var meirihluti, reyndar ekki mikill, á Alþingi fyrir því að leggja fram aðildarumsókn. Nú hefur ríkisstjórnin dregið sig úr aðildarviðræðunum og samninganefndinni við ESB hefur verið sagt upp. Það er mjög erfitt að halda því fram nú að aðild að evrusvæðinu hefði gagnast Íslandi betur en að geta fellt gengi okkar eigin gjaldmiðils. Hin hefðbundna andstaða við aðild að Evrópusambandinu, sem reist er á eigin stjórn yfir fiskveiðiauðlindinni og öðrum þáttum okkar eigins hagkerfis, hefur fundið viðspyrnu og eflst á ný.“
Loks víkur blaðakonan að ummælum Baracks Obama Bandaríkjaforseta á Clinton heimsþinginu um mikilvægi þess að Bandaríkin beiti sér í þágu mannréttinda. Spyr svo út í ástand heimsmála.
Mannréttindamálin brýnt viðfangsefni
Segir Ólafur Ragnar þá að auðvitað sé mikilvægt að beita sér í þágu mannréttinda og tjáningarfrelsis. Hinu megi ekki gleyma að það hafi tekið Vesturlönd langan tíma að ná þeim árangri sem þau búa nú við hvað þetta varðar.
„Ég minni fólk iðulega á að á fyrstu árum ævi minnar voru aðeins fimm lýðræðisríki í Evrópu. Öll heimsálfan var undir einræðisstjórn nasista, fasista og kommúnista. Þótt við nú þekkjum hvernig sagan þróaðist var ekki ljóst á fyrstu æviárum mínum [hvert framhaldið yrði]. Margt varð til fyrirstöðu á leiðinni til lýðræðis,“ segir Ólafur Ragnar og nefnir mannréttindahreyfinguna í Bandaríkjunum [e. Civil Rights Movement] og erfiða stöðu blökkumanna, og annarra minnihlutahópa, þar til múrar aðskilnaðar byrjuðu að hrynja á sjötta áratugnum.
„Þegar við styðjum hreyfingar í þágu lýðræðis og mannréttinda um víða veröld ættum við af auðmýkt að gera okkur ljóst að sú vegferð var ekki auðveld. Fjöldi mistaka, erfiðleikar og torsótt barátta markar þá leið. Við getum ekki búist við því að önnur ríki verði að lýðræðisríkjum í skyndi, þegar það tók Evrópu og Bandaríkin ekki áratugi, heldur ef til vill öld, að ná þeim árangri sem þau hafa náð,“ segir Ólafur Ragnar og vísar meðal annars til stöðu mannréttinda og tjáningarfrelsis.