Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík leggur til að deiliskipulag á Nýlendureit, þar sem rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur fengið kirkjulóð við Mýrargötu 21, verði óbreytt.
Hann telur að flutningur kirkjunnar á lóð við horn Seljavegar og Mýrargötu hafi ekki ótvíræða kosti í för með sér, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðin í dag.
„Kirkjan yrði mun stærri á nýjum stað og líklegt að ekki yrði mikil sátt um það, einkum má búast við því að ný staðsetning verði umdeild meðal lóðarhafa nálægra lóða,“ segir í niðurstöðu umsagnar skipulagsfulltrúans. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti umsögnina. Breyting á deiliskipulagi Nýlendureits var á dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 24. september sl.