„Bárðarbunga situr mitt á heita reitnum undir Íslandi,“ sagði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur.
„Heiti reiturinn byrjaði undir Síberíu fyrir svona 250 milljónum ára. Fleka jarðskorpunnar hefur síðan rekið eins og fleka á vatni en heiti reiturinn er áfram á sama stað. Nú kraumar hann undir okkur. Einu sinni var Síbería yfir honum, svo Baffinseyja, síðan Grænland og nú Ísland.“
Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings er unnið að því að skipuleggja vaktir við gosstöðvarnar en 30-40 manna hópur sérfræðinga, tæknimanna og stúdenta hefur komið að rannsóknum þar frá því gosið hófst. Að jafnaði eru þar 5-6 manns. „Menn reyna að gera þetta á sem hagkvæmastan hátt án þess að fórna öryggisþáttum,“ segir Magnús í umfjöllun um stöðu mála á Bárðarbungusvæðinu.