Björgunarstöðinni í Nuuk í Grænlandi barst í dag beini um aðstoð frá flutningaskipinu Reykjafossi. Skipverji hafði mjaðmagrindarbrotnað. Talið er að maðurinn sé með innvortis blæðingar.
Ákveðið var að senda danska varðskipið Triton til þess að sækja manninn og sótti þyrla frá varðskipinu manninn um borð í Reykjafoss um klukkan átta í kvöld. Þaðan heldur vélin aftur að varðskipinu þar sem hún tekur eldsneyti og heldur svo áfram til Reykjavíkur um leið og tækifæri gefst sökum fjarlægðar. Gert er ráð fyrir að þyrlan lendi með manninn í Reykjavík um miðnættið.