Um 50 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru nú við leit að þýskum ferðamanni í kringum Látrabjarg en hlé var gert á leitinni í vikunni þegar hún hafði engan árangur borið og frekari rannsóknarvinna var í gangi.
Leitað er vísbendinga á þeim slóðum sem vitað er að hann ók dagana áður en hann hvarf.
Engar nýjar vísbendingar hafa borist um hvar Christian Mathias Markus, sem er 33 ára, sé að finna.
Síðast sást til Markus yfirgefa hótelið í Breiðuvík í Vesturbyggð þann 18. september sl. Hann var einn á ferð, ók bílaleigubifreið af gerðinni Suzuki Grand Vitara. Sú bifreið fannst mannlaus á bifreiðastæðinu við Látrabjarg 23. september sl.
Ef einhver hefur orðið var við ferðir Markus þá óskar lögreglan á Vestfjörðum eftir þeim upplýsingum í síma 450-3730 eða í síma 112.