Læknanemar sem útskrifast frá læknadeild Háskóla Íslands næsta vor hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að sækja um eða ráða sig í stöðu aðstoðarlæknis eða í aðrar sambærilegar stöður á Íslandi frá og með 1. júní 2015, hafi nýr kjarasamningur lækna ekki náðst fyrir þann tíma.
Yfirlýsing þess efnis, undirrituð af 42 læknanemum á 6. ári, var afhent heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, á aðalfundi Læknafélags Íslands í fyrradag. Með þessu vilja læknanemarnir sýna kröfum samninganefndar Læknafélags Íslands stuðning í yfirstandandi kjarasamningsviðræðum.
„Við ætlum ekki að sækja um stöður á kandídatsárinu eða aðrar aðstoðalæknastöður á Íslandi fyrr en samningar nást. Kjarasamningar lækna hafa nú verið opnir í átta mánuði og þetta er okkar framlag til kjarabaráttunnar,“ segir Daði Helgason læknanemi á lokaári. „Við sjáum fram á að útskrifast í vor eftir sex ára háskólanám með einungis um 340.000 kr. í grunnlaun. Það eru kjör sem við erum ekki tilbúin að láta bjóða okkur og þess vegna höfum við gripið til þessara aðgerða. Við viljum gera þetta núna til þess að gefa ríkisstjórninni og ríkissáttasemjara tækifæri til þess að bregðast við þessu áður en til aðgerða kemur.“
Til þess að útskrifaður læknanemi geti fengið lækningaleyfi þarf hann að taka svokallað kandídatsár eftir 6. árið. Þá þarf hann að vinna aðstoðalæknisstörf í tólf mánuði á viðurkenndum heilbrigðisstofnunum.
Daði segir að yfirlýsingin nái ekki bara til Landspítalans, þar sem flestir taki stærsta hlutann af sínu kandídatsári, heldur líka til heilsugæslunnar og annarra sjúkrahúsa og spítala hér á landi.
Ef ekki nást samningar fyrir næsta vor ætla þau, að sögn Daða, að fresta því að hefja kandídatsárið og fá sér vinnu við eitthvað annað. „Við viljum auðvitað helst geta starfað hérna og fá læknaréttindi á Íslandi en við viljum líka gera það á kjörum sem eru ásættanleg og endurspegla lengd námsins og ábyrgðina í starfi.“
Læknanemarnir vinna nú að því að safna undirskriftum við yfirlýsinguna frá íslenskum læknanemum í Danmörku og Ungverjalandi ásamt 4.-5. árs læknanemum hér heima. Daði segir það ganga vel, enda lítist læknanemum ekkert á framtíðarhorfur sínar hér heima. ,,Við teljum að ríkisstjórn landsins ætti að líta það mjög alvarlegum augum að hér sé rekið heilbrigðiskerfi þar sem laun lækna eru það lág að sérfræðingar flýja land eða vilja ekki snúa heim að loknu sérnámi og nýútskrifaðir læknanemar sækjast ekki eftir læknaréttindum á núverandi kjörum.“