Verð á ógerilsneyddri mjólk í lausu máli verður hið sama frá og með mánudeginum 29. september í öllum viðskiptum Mjólkursamsölunnar hvort sem um er að ræða sölu til óskyldra aðila eða miðlun á mjólk til fyrirtækja í framleiðslusamstarfi með MS.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Einari Sigurðssyni, forstjóra Mjólkursamsölunnar. Hann segir að um sé að ræða varúðarráðstöfun, sem gildi meðan á áfrýjunarferli stendur eftir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem kynnt var í síðustu viku. Í henni felist engin viðurkenning á niðurstöðu eftirlitsins í málinu sem verður vísað til til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
„Kjarni málsins er deila um með hvaða hætti búvörulög heimila fyrirtækjum í nánu eigna- og framleiðslusamstarfi að miðla á milli sín verðmætum þegar þau stilla saman framleiðslukerfi sín til að ná fram hámarkshagræðingu. Á grundvelli búvörulaganna 2004 hafa Mjólkursamsalan, Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélög gert þetta með því að miðla hráefni milli sín á innkaupsverði án álagningar. Um þetta er nú deilt eftir að fram kom ný túlkun Samkeppniseftirlitsins á búvörulögum, sem hafa verið í gildi hér í 10 ár.
Meðan ekki hefur verið skorið úr um gildi þessarar nýju túlkunar hafa fyrirtækin ákveðið að nota ekki þetta fyrirkomulag og gera upp þetta samstarf á öðrum sviðum framleiðslu einstakra mjólkurafurða, geymslu og dreifingu þeirra en í verðlagningu á mjólk. Þetta er gert í varúðarskyni vegna réttarstöðu á tímabili áfrýjunarinnar. Þetta þýðir að á meðan málinu stendur verður reikningsfært hráefnisverð milli aðila í samstarfinu hið sama og til óskyldra aðila sem standa utan samstarfs. Það verð er í samræmi við ákvörðun verðlagsnefndar búvöru um verð fyrir ógerilsneidda mjólk í lausu máli sem tók gildi 1. apríl 2014. Innifalið í því verði er hlutdeild í áföllnum kostnaði við flutning og dreifingu, rannsóknir, gæðaeftirlit og sameiginlegan kostnað. Þetta verð gildir frá og með mánudeginum 29. september 2014 í öllum viðskiptum MS á þessum markaði.
Sem fyrr segir felur þessi breyting ekki í sér viðurkenningu á málflutningi eða niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, sem Mjólkursamsalan hafnar,“ segir í fréttatilkynningu frá MS.