„Þjónusta við mikið veika eða slasaða sjúklinga er ekki undir sama þaki á Landspítala og það er ein stærsta öryggisógnin í meðferð og umönnun þeirra. Öryggisógnin er raunveruleg og ekki bara orð sem við notum í umræðunni.“ Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans í forstjórapistli sínum á vef LSH í gær.
Páll segir flutningur mikið veikra sjúklinga til rannsókna eða meðferða milli húsa, jafnvel þó aðeins sé um 4 km að ræða, geti reynst örlagaríkur. „Þá eru ótalin þau óþægindi sem þessu fylgir fyrir sjúklinginn og það óhagræði sem slíkir flutningar valda fyrir rekstur spítalans.“
Eins og mbl.is sagði frá í gær er tölvusneiðmyndatæki Landspítalans í Fossvogi enn einu sinni bilað og hefur verið mikið annríki vegna þessa í sjúkraflutningum. Páll segir bilunina enn valda vanda. Unnt hefði verið að leysa þetta vandamál með varatæki í Fossvogi, en slíkt tæki hefði ekki þurft væri bráðastarfsemin á einum stað. „Lausnin getur ekki falist í öðru en sameinaðri bráðastarfsemi Landspítala við Hringbraut. Við megum engan tíma missa.“
Í pistlinum talar Páll jafnframt um það að verulega hafi þrengt að klínískri starfsemi síðustu ár og aðstaða sjúklinga og starfsfólks sé óviðunandi. Eins og fram hefur komið munu átján gámar rísa við norðurhlið Landspítalans í lok árs, en þeir munu hýsa skrifstofuaðstöðu starfsmanna. Gripið er til þessa ráðs vegna plássleysis. Páll segir þetta ekki kost til framtíðar fyrir starfsemi spítalans. „Hér er um bráðabirgðalausn að ræða sem ekki þyrfti að grípa til hefði endurnýjun húsnæðis Landspítala verið með eðlilegum hætti.“
Hann segir starfsáætlun Landspítala þó mjög metnaðarfulla og meðal markmiða þar sé markvisst umbótastarf með aðferðafræði straumlínustjórnunar (Lean). „Stöðugar umbætur eiga að vera drifkrafturinn í starfinu hér á spítalanum – við sinnum okkar hefðbundnu störfum og stuðlum að stöðugum umbótum.“