Ástríður Rán Erlendsdóttir, 22 ára gömul móðir, stytti sér aldur á Vogi fyrr í mánuðinum eftir að hafa lengi barist við vímuefnafíkn. Helena, móðir Ástríðar, og Ásta, amma hennar, segja sögu Ástríðar í forsíðuviðtali í Fréttablaðinu í dag, til þess að vekja athygli á því úrræðaleysi sem blasir við fíklum og aðstandendum þeirra.
Mæðgurnar segja eldri karlmenn nýta sér neyð þessara kvenna. Ástríður hafði verið á beinu brautinni í einn og hálfan mánuð þegar þjóðþekktur maður á miðjum aldri setti sig í samband við hana í gegnum Facebook. Ástríður féll heima hjá manninum, sem bauð henni áfengi þegar hún heimsótti hann. Mæðgurnar segja það því ekki aðeins menn sem tengjast undirheimunum sem sæki í stelpur í neyslu. „Þarna er bara maður í fínni stöðu, miklu eldri sem fór að sýna henni áhuga,“ segir amma hennar í viðtalinu.
Mæðgurnar segja mikilvægt fyrir foreldra sem eiga dætur í neyslu að skoða hverjir séu að setja sig í samband við stúlkurnar á samskiptasíðum. Í þessu tilfelli hafi verið um einbeittan ásetning að ræða þar sem maðurinn hafi áunnið sér traust hennar og lokkað svo heim til sín, gefið henni áfengi og haft aðeins eitt í huga. „Það er alveg skýrt að við erum ekki að leita að sökudólgi fyrir því hvernig fór. Þessi maður lagði samt sitt á vogarskálarnar við það,“ segir amma hennar í viðtalinu.
Eftir fallið heima hjá manninum breyttist margt hjá Ástríði og hún náði sér aldrei aftur á beinu brautina. Inn á milli vildi hún snúa blaðinu við en mæðgurnar segja úrræðaleysið hafa verið algjört. Síðustu mánuðir hjá Ástríði voru stjórnlausir í neyslu, en það var svo fyrir rúmum tveimur vikum að hún kom inn í sína síðustu meðferð. Þar féll hún fyrir eigin hendi.