Vísbending um kólnandi veður

Snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði.
Snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði. mbl.is/Brynjar Gauti

Skaflinn í Gunnlaugsskarði Esjunnar hefur ekki bráðnað að fullu í sumar að sögn Páls Bergþórs­son­ar veður­fræðings og fyrrverandi veðurstofustjóra. „Skaflinn er orðinn ansi lítill en mér sýnist á öllu að það séu litlir möguleikar á því að hann muni hverfa,“ segir Páll. „Það þarf þónokkurn hita til og það er orðið svo áliðið að ég myndi trúa að hann lifði sumarið af.

Skaflinn hvarf á hverju ári frá 2001 til 2010, en það var í fyrsta sinn sem hann hvarf í svo langan tíma samfleytt. Að sögn Páls helst það í hendur við það að áratugurinn hafi verið sá hlýjasti sem mælst hefur hér á landi. Þá hvarf hann einnig árið 2012, en árin 2011 og 2013 bráðnaði hann ekki að fullu. Páll segir veru skaflsins síðustu tvö árin geta verið vísbendingu um að það sé að kólna í veðri, þrátt fyrir að mælingar sýni það ekki.

Fjallað var um það á mbl.is í sumar að líklegt þætti að skaflinn myndi hverfa þetta árið þar sem mikil hlýindi voru í haust og sérstaklega frá áramótum.

Reglu­lega hef­ur verið fylgst með skafl­in­um í Gunn­laugs­skarði, sem er vest­an í Kistu­felli Esju, allt frá ár­inu 1909 og raun­ar benda heim­ild­ir til þess að skafl­inn hafi ekki horfið í ára­tugi fyr­ir árið 1929, að minnsta kosti frá 1863.

Skafl­inn, sem er í um 820 metra hæð yfir sjó, bráðnar al­farið í hlýj­um árum áður en snjór tek­ur að safn­ast þar fyr­ir aft­ur að hausti, en á köld­um tíma­bil­um helst hann allt árið. Páll segir engar heimildir um að þessi skafl hafi horfið fyrir 1930, þá hófst hlýindaskeið sem stóð í þrjátíu ár og hvarf skaflinn þá af og til. Um miðjan sjöunda áratuginn hófst kuldatímabil og hafði skaflinn ekki horfði á því fyrr en 2001.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert