Dregur úr skjálftavirkni í ganginum

Gosstöðvarnar í kvöld séðar úr vefmyndavél Mílu.
Gosstöðvarnar í kvöld séðar úr vefmyndavél Mílu. mynd/Míla

Síðustu daga hefur dregið hægt úr jarðskjálftavirkninni í ganginum norðanverðum í Vatnajökli að sögn Sigurlaugar Hjaltadóttur, jarðeðlisfræðings á Veðurstofu Íslands. Langflestir skjálftarnir þar verða sem áður undir norðanverðum Dyngjujökli og hafa um 15 skjálftar verið staðsettir á þeim slóðum í dag. Af vefmyndavélum að dæma er gosvirkni enn mikil.

Ekkert dregur hins vegar úr skjálftavirkni við sjálfa Bárðarbungu og á sjötta tug skjálfta hafa verið staðsettir þar í dag, sá stærsti mældist 5,2 stig laust eftir hádegi í dag við norðanverða öskjubrúnina.

Búast má við gasmengun í norðaustur frá gosstöðvunum í kvöld, yfir Hérað og norðanverða Austfirði, en vindur snýst smám saman í suðvestanlæga átt. Í nótt snýst í sunnan og suðaustanátt og færist þá áhrifasvæðið til vesturs í átt að Eyjafirði. Á morgun má búast við gasmengun til norðurs og norðvesturs, á svæði frá Tröllaskaga austur að Melrakkasléttu, en þá snýst í hvassa suðaustanátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert