Engar nýjar vísbendingar hafa borist til lögreglu um þýska ferðamanninn Christian Mathias Markus sem hefur verið leitað undanfarna daga við Látrabjarg. Engin eiginleg leit fór fram í dag, en áframhaldandi rannsóknarvinna hefur átt sér stað hjá lögreglunni á Vestfjörðum.
Um 50 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar leituðu Markus í gær, en ákveðið var að gera hlé á leitinni í dag þar sem hún hefur engan árangur borið.
Að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar, sem er í svæðisstjórn björgunarsveita á Vestfjörðum, hefur ekki gefist færi á því að leita á sjó, og mun líklega ekki gera það á næstu dögum samkvæmt veðurspá. Davíð segir að búið sé að kemba svæðið á landi mjög vel, en hann segir þó ekki víst að Markus hafi farið í sjóinn.
Lögregla hefur rannsakað málið í dag og reynt að finna upplýsingar um ferðir Markus og við hvern hann talaði dagana áður en hann hvarf. Einnig hefur lögregla verið í sambandi við fjölskyldu Markus sem hefur litlar upplýsingar getað gefið þar sem hann hafði ekki upplýst fjölskyldumeðlimi um ferð sína til Íslands. Markus hafði verið hér á landi í 5 daga þegar hann hvarf.
Síðast sást til Markus yfirgefa hótelið í Breiðuvík í Vesturbyggð þann 18. september sl. Hann var einn á ferð, ók bílaleigubifreið af gerðinni Suzuki Grand Vitara. Sú bifreið fannst mannlaus á bifreiðastæðinu við Látrabjarg 23. september sl.
Ef einhver hefur orðið var við ferðir Markus þá óskar lögreglan á Vestfjörðum eftir þeim upplýsingum í síma 450-3730 eða í síma 112.