„Með þessu viljum við fagna og þakka fyrir hinsegin nærveru og sýnileika í samfélaginu okkar og í kirkjunni,“ segir Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur í Laugarneskirkju um svokallaða Regnbogamessu sem haldin verður í Laugarneskirkju klukkan 20 í kvöld.
Meginmarkmið með Regnbogamessunni er að fagna fjölbreytileika, tjá gleði og þakklæti fyrir hinsegin nærveru og sýnileika, og benda á áskoranir og hindranir fyrir því að við öll fáum að vera eins og við erum. Messan er opin öllum og ávarpar sérstaklega hinsegin fólk, fjölskyldur þeirra og vini.
Regnbogamessan er orðinn árviss viðburður í Laugarneskirkju, en í fyrra var hún haldin sömu helgi og Hátíð vonar. „Þar voru leiðinleg skilaboð sem okkur fannst koma fram og við vildum standa með hinsegin samfélaginu og hinsegin fólki,“ segir Kristín. Ákveðið var að halda messuna sömu helgina þetta árið, 15. sunnudag eftir þrenningarhátíð. „Við vildum halda þessu áfram og það er algjör tilviljun að þetta sé sömu helgi og Kristdagurinn. Okkur fannst það samt ekkert leiðinlegt því það er svo dýrmætt að geta haldið á lofti breiddinni og fjölbreytileikanum.“
Hinsegin kórinn syngur í messunni og hljómsveitin Helíum leikur tónlist. Ræðumaður er Grétar Einarsson og með honum þjóna sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, David Anthony og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup. Fulltrúar frá Samtökunum ’78 verða einnig á svæðinu. „Við erum mjög glöð yfir þessu. Það er breið samstaða um að gefa þessu rými í söfnuðinum og vera dugleg að minna á þennan veruleika og lyfta honum upp,“ segir Kristín að lokum.