Sjálfstæðisflokkurinn „eins og syrgjandi ekkja“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

„Sjálfstæðisflokkurinn þarf að standa undir því trausti sem honum hefur verið falið með forystu í íslensku samfélagi. Hann hét því að áherslan yrði á grunngildin og forgangsröðun í ríkisrekstri. Hann hét því að takast á við ríkisreksturinn en ekki bara að skera niður í framkvæmdum. Hann hét því að leiða land og þjóð úr kreppu. Þetta getur hann ekki nema hann hætti að haga sér eins og syrgjandi ekkja.“

Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, á vefsíðu sína í kvöld. Líkir hann Sjálfstæðisflokknum eftir fall bankanna við aðstæður syrgjandi ekkju þar sem lífsgleði hefur vikið fyrir sorg. Fyrirtæki sem hún rak eð eiginmanni sínum gangi vel en ekki af sama krafti og áður. Eftir fall bankanna hafi Sjálfstæðisflokkurinn talið „sæma sér best að sýna ábyrgð sína með því að axla einn ábyrgð á hruninu.“ Þannig væri það enn sex árum síðar. Engum blöðum væri um það að fletta að stjórnmálin á Íslandi hafi gert mistök í aðdraganda hrunsins rétt eins og annars staðar þar sem slíkt hafi gerst. „Það á við um alla flokka. Allt tal um að það hafi gerst á vakt eins umfram annan er þvaður. Kjörnir fulltrúar eru alltaf allir á vakt. Ef þeir hafa ekki orku í það þá eiga þeir að finna sér annað að gera.“ Elliði segir að hin syrgjandi ekkja Sjálfstæðisflokksins sé hins vegar komin á endastöð.

„Hinn almenni flokksmaður vill ekki lengur að forystumenn séu eins og mýs undir fjalaketti. Við skömmumst okkar ekki fyrir stefnuna. Ég er stoltur af því ef fjárlög eru kennd við frjálshyggju. Það er ekki skammaryrði heldur sú stefna að setja beri ríkisvaldi þröng takmörk, en treysta þess í stað aðallega á frjáls viðskipti og sjálfsprottnar venjur. Ég skammast mín ekki fyrir að vera hægrimaður og er stoltur af því. Við viljum sýna í verki að við erum stolt af sögu okkar og árangri. Hinni syrgjandi ekkju standa nú allir vegir færir. Fyrirtækið er sterkt, heimilið hlýlegt og börnin vel gerð. Vonbiðlarnir eru margir og með þeim eða án þeirra er framtíðin björt. Fyrirtækið gengur enn vel en það þarfnast meiri kraft og áræðni við stjórnun þess til að það nái fyrri styrk.“

Pistill Elliða Vignissonar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert