Drukknaði í Ölfusá

mbl.is

Um klukkan hálftíu í morgun barst lögreglu tilkynning um mannlausa bifreið á Óseyrarbrú milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar. Við nánari skoðun benti ýmislegt til að maður sem hafði verið í bifreiðinni hefði fallið af brúnni í ána, segir í frétt frá lögreglunni á Selfossi. Þegar í stað voru björgunarsveitir í Árnessýslu kallaðar út til leitar ásamt sveitum af höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. 

Kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra, Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og björgunarsveitum voru til taks á leitarsvæðinu sem var beggja vegna Ölfusáróss. Rúmlega hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni sem bar árangur þegar klukkan var rétt gengin tvö er maðurinn fannst látinn í fjörunni á Óseyrartanga um 300 metra vestan við veitingastaðinn Hafið bláa. 

Skilyrði til leitar voru mjög erfið vegna hvassviðris, rigningar og mikils sandfoks.

Lögreglan á Selfossi þakkar björgunarsveitarönnum, köfurum og öðrum sem með einhverjum hætti tóku þátt í leitinni. Þá er þökkum komið til eigenda Hafsins bláa sem opnuðu veitingastaðinn þegar eftir því var leitað og veittu leitarfólki húsaskjól og hressingu án endurgjalds, segir í frétt lögreglunnar um málið.

Frétt mbl.is: Fannst látinn við Óseyrarbrú

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert