Hávaðarok og rigning

Það er alveg eins gott að halda sig sem mest …
Það er alveg eins gott að halda sig sem mest innandyra á Suður- og Vesturlandi fram yfir hádegi sé þess nokkur kostur Styrmir Kári

Mjög hvasst er orðið á Suður- og Vesturlandi og fylgir mikil úrkoma rokinu. Varað er við hvassviðri á Reykjanesbrautinni, Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli en þar hefur vindur farið í yfir 30 metra á sekúndu í verstu hviðunum. Er því spáð að það hvessi enn frekar á næstu klukkustundum.

Ekki verður flogið innanlands fyrr en líða tekur á morguninn en samkvæmt tilkynningu á vef Flugfélags Íslands verða næstu upplýsingar um flug félagsins veittar klukkan 9:15. 

Lögreglan á Suðurnesjum segir að þar sé bálhvasst en veðrið hefur hins vegar ekki haft áhrif á millilandaflug um Keflavíkurflugvöll.

Búist er við hvassviðri eða stormi næstu daga og talsverðri úrkomu á S-til á landinu. Víða verða hvassir vindstrengir við fjöll í dag og afleitt ferðaveður á hálendinu. Dregur mjög úr vindi í kvöld, en hvessir aftur á morgun, einkum V-lands.

Talsverður lægðagangur er nú á Norður-Atlantshafi og fram á miðvikudag koma upp að suðvesturströndinni þrjár krappar lægðir. Þeim fylgir sunnan- og suðaustan stormur og talsverð eða mikil rigning um sunnan- og vestanvert landið.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni má reikna með vindhviðum 30-40 m/s á utanverðu Kjalarnesi og einnig á Reykjanesbrautinni næstu klukkustundirnar.  Enn verra veðri og allt að 40-50 m/s undir Hafnarfjalli og á Snæfellsnesinu norðanverðu, frá Grundarfirði og út fyrir Enni. Gengur niður á þessum slóðum um og upp úr hádegi.

Í dag er spáð suðaustan 18-25 m/s á Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði og samkvæmt spá Veðurstofunnar á veðrið að ná hámarki fyrir hádegi.

Spáð er suðaustan 15-23 m/s annars staðar á landinu á morgun, um og upp úr hádegi hvessir á Vestfjörðum og Suðausturlandi og síðdegis á norðaustanverðu landinu og á Austfjörðum. Talsverð úrkoma fylgir storminum og mikil úrkoma er líkleg suðaustanlands.

Spáin fyrir þriðjudag og miðvikudag er eftirfarandi:

Á þriðjudag: Sunnan og suðaustan 15-23 m/s. Hvassast á Vesturlandi. Rigning, talsverð SA-lands en heldur hægari og rigning með köflum norðaustantil. Hiti 5 til 10 stig.

Á miðvikudag: Suðvestan 15-23 m/s og skúrir eða rigning en sunnan 10-15 m/s og úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Hiti 5 til 9 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert