Bardagakappinn Gunnar Nelson hefur undirbúið sig af kappi fyrir bardagann gegn Rick Story sem fer fram í Globen í Stokkhólmi um næstu helgi. Gunnar hefur verið við æfingar á Írlandi og er í mjög góðu formi að sögn föður hans. Gunnar er nú á Íslandi en hann heldur út til Svíþjóðar á morgun.
„Hann lítur svakalega vel út og hefur aldrei verið betri,“ segir Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars í samtali við mbl.is.
Haraldur tekur fram að Gunnar verði að vera í topp formi enda sé Story mjög erfiður andstæðingur. Story hafi sjálfur sagt að hann hafi aldrei verið í betra formi. „Hann er einn af tveimur, og sumir segja eini, sem hafa unnið núverandi meistara, Bandaríkjamanninn Johny Hendricks.
„Hinn sem vann hann var George St. Pierre, sem þá var meistari. Það var „split decision“. Það fannst mörgum það vera ósanngjörn úrslit hjá dómurunum. En Story sem Gunni er að fara á móti vann hann [Hendricks] - það var samdóma álit. Þetta verður hörku bardagi,“ segir Haraldur.
Gunnar skrifaði á Twitter fyrr í dag að það hefði verið gaman að hitta Bono, söngvara írsku rokkhljómsveitarinnar U2. Spurður út í tístið, segir Haraldur að þetta hafi verið grín.
It was nice to meet Bono :) http://t.co/AGDNd5MKnk pic.twitter.com/6unJpdC80w
— Gunnar Nelson (@GunniNelson) September 29, 2014
Haraldur segir að skipuleggjendur UFC-mótaraðarinnar hafi að undanförnu verið að birta auglýsingar í léttum dúr til að vekja athygli á keppninni. Þeir birtu nýverið auglýsingu þar sem fram kemur að Bono hafi heimsótt Ísland til að biðja Gunnar persónulega afsökunar á því að nýjsta U2-breiðskífan hafi ratað inn á iTunes hjá honum. Átti Bono að hafa aðstoðað Gunnar við að fjarlægja plötuna úr tölvunni.
Haraldur segir að Gunnar eigi enn eftir að hitta Bono.
Hann bætir við að önnur auglýsing, sem Haraldur segist vera sérstaklega hrifinn af, hafi hljóðað á þessa leið: „Gunnar Nelson talar öll tungumál í heimi. Hann kýs bara að þegja á þeim öllum,“ segir Haraldur og hlær.
Bardaginn fer fram í Stokkhólmi 4. október nk.