Íbúð í útleigu lögð í rúst

Mosfellsbær
Mosfellsbær Sigurður Bogi Sævarsson

Eigandi íbúðar á þriðju hæð í fjölbýlishúsi við Urðarholt í Mosfellsbæ fær ekki bætur frá tryggingafélagi sínu, Verði. Maðurinn leigði íbúð sína út en rifti samningnum eftir vanefndir. Svo virðist sem leigjandinn hafi skilið við íbúðina með sleggju- og hamarshöggum. Eignin var sögð í rúst. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í dag en þar er fallist á rök Varðar og tryggingafélagið sýknað af kröfu eiganda íbúðarinnar.

Málsatvik eru reifuð í dómnum og segir að á árinu 2012 hafi eigandinn leigt 22 ára karlmanni íbúðina. Vegna vanefnda leigjandans rifti eigandi íbúðarinnar leigusamningi við hann og krafðist úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um að heimilaður yrði útburður leigjandans. Var krafan tekin til greina með úrskurði réttarins 30. október 2012 en leigjandinn hélt ekki uppi vörnum í málinu.

Aðfararbeiðni á grundvelli hans var móttekin hjá sýslumanninum í Reykjavík 13. nóvember 2012. Þann 3. janúar 2013 fór aðfarargerðin fram að leigjandanum fjarstöddum og var eigandanum veitt innsetning í umráð eignarinnar.

Úrskurðarnefnd taldi að greiða ætti bætur

Eigandinn kallaði lögregluna til enda grunaði hann að einhverjar skemmdir hefðu verið unnar á íbúðinni. Um aðkomu að íbúðinni segir í gerðabók: „Eignin er öll í rúst. Búið er að fara með sleggju eða þungan hamar og eyðileggja veggi, hurðar og gluggakistur auk alls annars í eigninni sem hægt er að skemma. Jafnframt er búið að sletta málningu á veggi og gólf.“ Lögreglan myndaði skemmdirnar og leiðbeindi eigandanum um framhaldið.

Tjónstilkynning eigandans barst Verði 4. janúar 2013 og í henni kemur fram að eigandinn viti ekki hvernig né hvenær eignaspjöllin hafi átt sér stað. Vísað var til þess að við útburðargerðina hafi komið í ljós eignaspjöll og að sjá mætti á hurðinni að hún hefði verið brotin upp í þeim tilgangi að komast inn í íbúðina.

Vörður hafnaði bótaskyldu og vísaði til þess að læsing á útidyrahurð hafi verið óskemmd og því bendi ekkert til þess að um innbrot hafi verið að ræða. Eigandinn kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum og lá álit hennar fyrir þann 28. júní 2013. Niðurstaða nefndarinnar var sú að eigandinn ætti rétt á bótum úr húseigendatryggingu stefnda.

Vörður neitaði samt sem áður að hlíta úrskurði nefndarinnar og höfðaði maðurinn því dómsmál og krafði Vörð um rétt tæpar 5,7 milljónir króna.

Skemmdir ekki eftir innbrot

Í niðurstöðu dómsins segir að ágreiningur sé um hvort verksummerki á dyraumbúnaði hafi borið með sér að brotist hafi verið inn í íbúðina. Ljósmyndir sem teknar voru af fulltrúa sýslumanns sýni óveruleg verksummerki á hurðarkarmi íbúðarinnar og fyrir liggi að lás á útidyrahurð var skemmdur þannig að komast mátti inn í íbúðina án lykils. „Þá verður ekki hjá þeirri staðreynd litið að leigjandinn hafði umráð yfir íbúðinni fram til þess að gerð sýslumanns fór fram. Líkur eru þannig á því að spjöll á eigninni, að hurðarbúnaði meðtöldum, hafi verið unnin af honum eða gestum hans eins og fyrirliggjandi gögn gefa vísbendingu um.“

Dómurinn vísar þá til þess að eigandinn hefði ekki lagt fram kæru á hendur leigjandanum þrátt fyrir leiðbeiningar lögreglu. „Því fór lögreglurannsókn ekki fram í málinu eins og full ástæða var þó til.“

Þá segir í niðurstöðu dómsins að eigandi íbúðarinnar hefði hvorki gert reka að því að huga að eign sinni eftir ábendingu nágranna um læti í íbúðinni né gert tilraun til að hafa samband við leigjandann þrátt fyrir vísbendingar um að þar væri ekki allt með felldu.  „Þá er alls óvíst hvenær leigjandinn fór út úr íbúðinni og hvernig viðskilnaður hans var.“

Sökum alls þessa taldi dómurinn að að ósannað væri það skilyrði fyrir greiðslu bóta, samkvæmt skilmálum húseigendatryggingar eigandans, að skemmdir á íbúð hans hafi verið unnar í kjölfar innbrots eða innbrotstilraunar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert