Ríkissaksóknari hefur ákært 25 ára karlmann, búsettan í Reykjavík, fyrir tvær líkamsárásir framdar að morgni þriðjudagsins 1. janúar 2013. Maðurinn réðst með ofbeldi að tveimur konum fyrir framan skemmtistaðinn Bar 46, sem þá var starfræktur. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Annars vegar er maðurinn ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist með ofbeldi að annarri konunni, slegið hana hnefahöggi í andlitið og skömmu síðar sparkað í höfuð hennar þar sem hún lá í götunni. Í kjölfar þess að konan stóð upp sló maðurinn hana hnefahöggi í andlitið.
Við þetta hlaut konan heilahristing, þreifieymsli í hársverði, sár innan á neðri vör, los á báðum miðframtönnum í efri gómi auk þess sem það brotnaði upp úr miðframtönn í efri gómi vinstra megin.
Hins vegar er hann ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa veist með ofbeldi að annarri konu á sama tíma og slegið hana hnefahöggi í andlitið svo hún féll í götuna. Við þetta hlaut konan heilahristing og eymsli yfir kjálkalið hægra megin.
Önnur konan krefst þess að maðurinn verði dæmdur til að greiða sér 1,5 milljón króna í miska- og skaðabætur.