Nýliðið sumar er það úrkomumesta í Reykjavík frá upphafi mælinga, samkvæmt bráðabirgðatölum sem Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur tekið saman um mánuðina júní til og með september, þ.e. veðurstofusumarið.
Úrkoman var sjónarmun meiri en tvö ár í lok 19. aldar, 1887 og 1899. Úrkoma var einnig í meira lagi á Akureyri, sú mesta síðan sumarið 2005.
Sumarið 2014 var það sjöunda hlýjasta frá upphafi mælinga í Reykjavík, 0,3 stigum ofan meðalhita síðustu tíu ára og 1,6 stigum ofan við meðaltalið 1961 til 1990. Samkvæmt bráðabirgðatölum var sumarið á Akureyri í þriðja sæti frá upphafi mælinga hvað hita varðar.