Góð lausn eða ólögleg starfsemi?

Ásdís Ásgeirsdóttir

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands telur að heyrnatæki, sem hafa verið auglýst á hjúkrunarheimilum og íbúðum aldraða undanfarið séu ekki lögleg. Maðurinn á bakvið auglýsingarnar telur þó að tækin sem hann bjóði til sölu hjálpi fólki og sé ódýr og góð lausn.

„Við heyrðum um þetta fyrst fyrir um þremur vikum síðan. Þá kom hingað kona með tæki sem hún hafði fengið hjá þessum manni og var að spyrja okkur út í þetta hvort að þetta hafi verið góð hugmynd,“ segir Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöð Íslands um heyrnatæki sem stöðin varaði við í tilkynningu í dag.

Í tilkynningunni er varað við tækjunum, en þau eru sögð ódýr og með ábyrgð í tvö ár. „Þau eintök tækja sem Heyrnar-og talmeinastöð Íslands hefur fengið að skoða eru kínversk framleiðsla og eru einfaldir hljóðmagnarar sem settir eru inn í hlustir viðkomandi. Tækin er ekki hægt að aðlaga sérstaklega að heyrnarskerðingu viðkomandi einstaklings,“ segir m.a. í tilkynningunni.

„Okkur leist nú mátulega á þetta og spurðum hvar hún hefði frétt af þessu. Þá sagði hún að það hafi verið auglýsing í húsinu sem hún býr í, sett upp í sambýli fyrir aldraða. Við nálguðumst þessa auglýsingu og kynntum okkur málið,“ segir Kristján sem bætir við að síðan þá hafa fleiri komið og spurt um þessi tæki.

Hafði samband við söluaðilann

Kristján hringdi í söluaðilann fyrir um hálfum mánuði síðan og benti honum á að heyrnatækjasala væri háð leyfum velferðarráðuneytisins. „Hann kom alveg af fjöllum með það en sagðist ætla að kynna sér málið. Ég sagði honum að það væri réttast fyrir hann að kynna sér reglugerðir til að vera ekki á skjön við lög og ráðlagði honum að hægja á markaðsstarfsemi þar til hann fengi tilskilin starfsleyfi eða hefði vissu fyrir því að hann væri ekki að bjóða vöru í trássi við lög og reglur.“

Á mánudaginn komu hjón til Kristjáns sem eru bæði heyrnarskert og voru að spyrja um tækin, en þau höfðu fengið auglýsingu um þau í pósti um helgina. Kristján telur að það sýni að söluaðilinn hafi ekki hætt markaðssetningunni, þrátt fyrir tilmæli HTÍ.

„Okkur sýnist að þessi tæki muni ekki gagnast mörgum. Þetta er einfaldur hljóðmagnari sem stungið er inn í eyrað og magnar upp öll hljóð,“ segir Kristján. „Heyrnaskertir þurfa í flestum tilvikum heyrnatæki til þess að geta greint betur tal og raddir frá öðrum umhverfishávaða. Þá þarf að vera með tæki sem hægt er að stilla og laga að þeirri heyrnaskerðingu sem hrjáir viðkomandi. Heyrnatækin sem þarna eru auglýst bjóða ekki upp á neitt slíkt.“

Kristján lítur á sölu tækjanna sem mögulega ólöglega starfssemi. „Hann er ekki sérmenntaður heyrnafræðingur og hann býður ekki upp á heyrnamælingar til að meta ástand heyrnaskerðingar. Þetta gæti verið ólögleg starfssemi eins og við metum þetta.“

Kristján vonar þó að maðurinn sjái að sér og kynni sér þær reglur sem gilda. „Mér finnst ekki eðlilegt að stefna á aldraða og fólk sem hefur lítið milli handanna. Að sjálfsögðu er okkur annt um alla heyrnaskerta og að þeir fái rétta aðstoð og meðferð. Ég treysti því að maðurinn kynni sér lög og reglur og hætti þessu.“

Tækin koma sér vel fyrir fullt af fólki

„Ég verð að viðurkenna það að þeir settu mig nú svolítið útaf laginu en ég veit ekki hvort þeir hafi einhvern rétt sín megin,“ segir Þórir Gunnlaugsson, sem auglýsir tækin. „Ég held til dæmis að Tiger þurfi nú ekkert leyfi til að selja þessi gleraugu sem þeir eru að selja. Fólk notar þau í einhvern tíma og svo verður sjónin verri og þá fer fólk til sérfræðinga. Það er mjög áþekkt því sem ég er að gera.“

Þórir segir að heyrnatækin sem hann auglýsi séu ódýr og komi sér vel fyrir fullt af fólki. Segir hann þau heyrnatæki vera ólík þeim sem Heyrna- og talmeinastöð selur. „Þetta er tæki sem magnar upp heyrnina og hver og einn þarf að aðlagast að því.“

Þórir segir að hann hafi talað við lækni sem noti heyrnatæki eins og þau sem Þórir flytur inn. „Hann sagði að þessi tæki séu góð fyrir stóran hluta eldri borgara sem fyrsta heyrnatæki, jafnvel til margra ára.“

„Eina sem ég er að gera er að ég gef eldri borgurum sem neita að kaupa 400 þúsund króna heyrnatæki, heyrn. Ég lána fólki þetta og þau taka ákvörðun hvort það kaupi eða ekki,“ segir Þórir sem bætir við að allur gangur sé á því hvort að fólk sé ánægt eða ekki. „Það er þó meira en helmingur sem hefur verið ánægður.“

Þórir segist ekki hafa verið lengi að auglýsa tækin en að hann hafi fengið góðar viðtökur.

„Það er leiðinlegt að vera í þessu í einhverju stríði við menn sem selja margfalt dýrari tæki. Ég veit ekki hvort ég haldi áfram með þetta en ég get ekki ímyndað mér að ég sé að gera eitthvað ólöglegt.“

„Vara við ólög­legri sölu á heyrn­ar­tækj­um“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka