Ljóstrað upp um leynilega reikninga

Hægt er að hafa það mjög notalegt á Tortólu, einkum …
Hægt er að hafa það mjög notalegt á Tortólu, einkum ef menn eiga nóg af peningum á leynireikningum. En hvað ef Skattmann kemst í hann? Af Wikipedia

Heimildarmenn segja líklegt að íslenskum útrásarvíkingum hafi tekist að fela milljarða króna í erlendum skattaskjólum. Vitað er að starfsmenn dótturfélaga íslensku bankanna í Lúxemborg bentu mönnum á að þeir gætu stofnað félög sem síðan stofnuðu leynireikninga í skattaskjólum í Karíbahafsríkjum og víðar. Þar væri hægt að fela fé. Erfitt hefur reynst að rekja þessa þræði enda aflandsríkin treg til að veita upplýsingar.

En ýmsar upplýsingar um undanskot hafa verið birtar á vef rannsóknarblaðamanna, ICIJ. Nú gæti farið svo að íslensk stjórnvöld keyptu upplýsingar af óþekktum aðilum sem geta varpað nýju ljósi á undanskot frá skatti.

Á síðustu árum hafa öðru hverju borist fregnir af tilboðum sem embætti Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra hefur fengið um kaup á slíkum gögnum um félög og einstaklinga. Viðbrögð hafa verið fremur dræm enda ekki einfalt mál fyrir ríkisvaldið að kaupa gögn sem hljóta að teljast illa fengin, í reynd þýfi. Yrði ríkið ekki samsekt lögbrjótnum nafnlausa og þannig siðlaust? Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra benti í vor á að þarna gæti verið um að ræða vafasamt fordæmi. Og skattrannsóknarstjóri sagði ljóst að bæði væru kostir og gallar við kaup af þessu tagi.

En nú er komið annað hljóð í strokkinn, fjármálaráðherra og þingmenn keppast við að lýsa því yfir að ekki megi útiloka þennan möguleika. Skattrannsóknarstjóri sendi í september fjármálaráðuneytinu minnisblað um málið. Bryndís segist alls ekki taka afstöðu gegn kaupum á þessum gögnum en hafi hvorki lagalega heimild né fjárheimildir til að taka tilboðunum. Ráðherra verði að taka slíka ákvörðun.

Niðurstaða embættisins sé að í þeim „sýnishornum“ sem væntanlegir söluaðilar gagnanna hafi sent til að auka áhuga stjórnvalda séu vísbendingar um að hægt verði að nýta gögnin.

„Þetta er auðvitað stór ákvörðun og ég hef reynt að gefa ráðherra svigrúm til að móta sína eigin skoðun,“ segir Bryndís. „En ég held að þróunin úti í heimi sé í þessa átt. Þýskaland hefur keypt gögn um skattaundanskot en á Norðurlöndunum hafa menn m.a. bent á að þessi aðferð kynni að skaða samninga við aflandsríkin um skipti á upplýsingum. Samningar séu vænlegri leið.“

Gögn þurfa að vera ítarleg

„Hins vegar þarf alltaf að meta þá hagsmuni sem eru undir. Kannski eru fyrir hendi borðliggjandi upplýsingar þannig að auðvelt er að sanna sök. En svo geta verið vísbendingar um brot. Þá þarf að skoða þetta í ljósi þess hve mikinn mannskap og fleira af því tagi þyrfti til að vinna úr þeim og hver líkindin væru á að hægt væri að upplýsa undanskot.“

Gögnin verði að vera ítarleg, þess vegna þurfi að halda væntingum um árangur í ákveðnu hófi.

„Þó að okkur hafi tekist í mörgum tilfellum að upplýsa þessi mál hefur það reynst tímafrekt og erfitt. Þau gögn sem hafa helst komið okkur að gagni eru þau sem hefur verið aflað í húsleit hérlendis. En í sumum tilvikum höfum við þurft að láta kyrrt liggja vegna skorts á fullnægjandi gögnum.“

Fjöldi leynireikninga

Ekki er ljóst hve mikið þarf að greiða fyrir upplýsingarnar, hvort það yrðu milljónir eða tugmilljónir. Sumir heimildarmenn blaðamanns ræða annan kost: að óþekkti seljandinn fái prósentu af því fé sem ríkið klófesti. Bryndís Kristjánsdóttir segir að málið sé ekki komið á það stig að rætt hafi verið um fjárhæðir. Útilokað sé líka að giska á það hve mikið myndi innheimtast með hjálp gagnanna.

En slá megi föstu að óvenjumikið hafi verið um að Íslendingar feldu eignir í skattaskjólum, miðað við aðrar þjóðir.

Hún óttast ekki að eigendurnir bregðist nú við með því að koma fénu fyrir annars staðar. Gögn sem sýni undanskotin muni ekki hverfa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert