„Það hafa engar beiðnir verið til meðferðar fyrr en ég fékk þær sendar frá endurupptökunefnd,“ segir Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari í samtali við mbl.is en fyrr í kvöld gagnrýndi Ragnar Aðalsteinsson lögmaður seinagang í ákvörðun ríkissaksóknara um að lýsa sig vanhæfan til að veita endurupptökunefnd umsögn um viðhorf sitt til Guðmundar- og Geirfinnsmála.
„Þetta hefði mátt koma fram fyrir nokkuð löngu vegna þess að ríkissaksóknari hafði tiltekin afskipi af þessu máli fyrir einu eða tveimur árum, eftir að hafa fengið erindi frá þáverandi innanríkisráðherra,“ sagði Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar, í samtali við mbl.is.
„Þó skýrslan hafi komið út þá var málið ekki til neinnar formlegrar meðferðar hjá embætti ríkissaksóknara. Það eina sem ég gerði var að senda út bréf þar sem leitað var eftir afstöðu til hugsanlegrar endurupptöku,“ segir Sigríður og bendir á að ríkissaksóknari hafi ekki að eigin frumkvæði farið fram á endurupptöku þessara mála. Var því að mati ríkissaksóknara ekki hægt að taka afstöðu til hæfis fyrr en beiðnir um endurupptöku bárust embættinu frá þeim sem aðild eiga að máli.
Spurð hvort ákvörðun hennar um að lýsa sig vanhæfa til að veita umsögn í málunum hafi verið erfið svarar Sigríður: „Ég velti þessu náttúrulega mikið fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að réttast væri að gera þetta.“
Í bréfi ríkissaksóknara, sem birt er á heimasíðu embættisins, kemur m.a. fram að Örn Höskuldsson, fulltrúi yfirsakadómara, vann að rannsókn beggja málanna og stýrði rannsókn þeirra framan af. Hann er kvæntur móðursystur Sigríðar og því hafi hún ákveðið að rita dómsmálaráðherra bréf þess efnis að hún telji sig vera vanhæfa til að veita endurupptökunefnd umsögn um viðhorf sitt til þessara tveggja endurupptökubeiðna.