Skurðlæknafélag Íslands fer fram á upp undir 100% hækkun á grunnlaunum nýútskrifaðra sérfræðinga í kjaraviðræðum við ríkið sem nú standa yfir. Skurðlæknar hafa verið samningslausir í um níu mánuði og í fyrrakvöld kom í ljós að þeir munu kjósa um verkfallsaðgerðir á næstu dögum eftir árangurslausan fund með samninganefnd ríkisins hjá ríkissáttasemjara.
Skurðlæknar fara ekki fram á fasta prósentuhækkun á launum en að sögn Ólafs Ingimarssonar bæklunarskurðlæknis sem á sæti í kjarasamninganefnd Skurðlæknafélagsins er farið fram á að laun skurðlækna hér á landi verði svipuð og þau eru í nágrannalöndunum. „Það er ekki óalgengt að nýútskrifaður sérfræðingur í Svíþjóð fái 60 til 70 þúsund sænskar í laun á mánuði,“ segir Ólafur. Það er rétt rúm milljón í íslenskum krónum en nýútskrifaður sérfræðingur á Íslandi er með um hálfa milljón í grunnlaun.
„Við höfum verið að sjá hvernig kjör manna hafa verið að versna, sérstaklega samanborið við önnur lönd og það er sífellt erfiðara að fá nýtt fólk heim. Þetta snýst um samkeppnishæfni og við lítum svo á að við séum að reyna að bjarga heilbrigðiskerfinu til framtíðar. Það verður að bjóða þannig kjör að menn vilji koma hingað og vinna,“ segir Ólafur. „Við viljum líka betri vinnuaðstæður á Landspítalanum og auka launaframgang á launatöflunni en taflan sem við höfum verið með hefur ekki leyft það nema að takmörkuðu leyti.“
Í Skurðlæknafélagi Íslands eru rétt tæplega hundrað félagsmenn. Þar er nú verið að undirbúa verkfallskosninguna og að sögn Ólafs er hugur í mönnum. „Við erum að fara yfir alla lista og svo verður rafræn kosning. Það var haldinn félagsfundur um daginn og þá var töluverður hugur í þeim sem mættu á þann fund. Það verður að sjá hvað kemur út úr atkvæðagreiðslunni.“
Ef skurðlæknar fara í verkfall verður algjör lágmarksstarfsemi á skurðstofum. Ólafur segir að mönnunin verði minni en á aðfangadag; yfirlæknar verði á dagvakt og sérfræðingur á gæsluvakt eftir kl. 16. Öll áætluð starfsemi fellur niður og aðeins bráðaaðgerðir verða framkvæmdar.
Spurður hvort skurðlæknar séu bjartsýnir á að fá sínu framgengt svarar Ólafur að nú standi á stjórnvöldum að sýna hver viljinn sé.
Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir að kröfur skurðlækna séu umfram það sem ríkið treysti sér til að verða við. „Við bjóðum þeim sambærilega hækkun og við höfum verið að semja um við aðra, 2,8%,“ segir Gunnar sem sér ekki fram á að samningar náist á næstunni eins og staðan er núna. Nýr fundur í kjaradeilunni hefur ekki verið boðaður.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans, sagðist í samtali við mbl.is í gær hafa þungar áhyggjur af yfirvofandi verkfalli og hann vonaðist til að samningar næðust á milli deiluaðila áður en til þess kæmi.