Buster heldur starfinu

Buster er ekki talinn hættulegur og heldur hann starfi sínu …
Buster er ekki talinn hættulegur og heldur hann starfi sínu hjá lögreglunni. Ljósmynd/Guðmundur Karl/Sunnlenska

Buster, sex ára springer spanielhundur og starfsmaður lögreglunnar á Selfossi, er hæfur til starfa sem fíkniefnahundur og er ekki talinn hættulegur.

Hann þarf ekki að bera múl en huga þarf betur að aðstæðum hans og veita honum meiri athygli. Þetta kemur fram í niðurstöðum skapgerðarmats. 

Glefsaði í barn á tjaldstæði

Fréttir bárust af því í sumar að Buster hefði glefsað í barn sem kom að honum þar sem hann var bundinn við fellihýsi umsjónarmanns síns á tjaldstæði í Árnessýslu, en lögreglumaðurinn sem hefur umsjón með Buster var þar í útilegu með fjölskyldu sína.

Barnið meiddist á hendi þannig að húðrispur hlutust af. Foreldrar barnsins, sem er fætt árið 2006, mátu málið þannig að ekki væri tilefni til að leita til læknis. Yfirlögregluþjónn fylgdi málinu eftir og svo virðist sem barnið hafi náð sér að fullu stuttu eftir atvikið. Buster þurfti aftur á móti að gangast undir skapgerðarmat og bera múl eða körfu til öryggis.

Leika þarf við Buster og sýna athygli

Niðurstöður úr skapgerðarmatinu liggja nú fyrir. Þar kemur meðal annars fram að Buster sé ekki hættulegur og hann sé hæfur til starfsins. Ljóst er að hlúa þarf betur að honum, veita honum meiri athygli og leika við hann. 

Að sögn lögreglu á Selfossi verður nú farið yfir verkferla og þá verður einnig farið yfir aðstæður Busters en meðal annars var talið skipa þyrfti honum betri skilyrði, t.d veita honum rýmra pláss.

Buster heldur starfinu og mun halda áfram að þefa upp fíkniefni fyrir lögregluna, en hann hefur staðið sig afar vel í starfinu síðastliðin ár.

Hér má lesa fleiri fréttir mbl.is um Buster:

Buster glefsaði í barn

„Viljum hafa okkar hluti í lagi“

Buster lætur nefið ráða för

Buster stóð undir nafni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert