Hjörtur hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar

Hjörtur tók við verðlaununum í dag.
Hjörtur tók við verðlaununum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hjörtur Marteinsson hlaut Bók­mennta­verðlaun Tóm­as­ar Guðmunds­son­ar árið 2014 við hátíðlega at­höfn í Höfða í dag en verðlaun­in hlaut hann fyr­ir ljóðahandritið Alzheimer-tilbrigðin. Verðlaun­in voru veitt af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra en þau nema 600 þúsund krón­um. Fyrstu ein­tök af bók­inni komu á sama tíma úr prent­un í út­gáfu Tunglsins.

Í umsögn dómnefndar segir um Alzheimer-tilbrigðin: „Ljóðabókin Alzheimer-tilbrigðin eftir Hjört Marteinsson hefur sérkennilegt og seiðandi aðdráttarafl [...] Tónn bókarinnar er gráglettinn, hlýr, mjúkur og allt að því angurvær og höfundur miðlar vel þeirri þokukenndu tilfinningu sem hlýtur að fylgja því að horfa upp á ástvin sinn hverfa inn í völundarhús hugans, án mikillar vonar um endurkomu.“

Hjörtur segir viðurkenningu þessa hafa komið honum „fullkomlega á óvart.“ „Ég sendi handritið inn í maí að áeggjan Dags, sonar míns, sem hlaut þessi verðlaun árið 2012 fyrir ljóðabókina Þar sem vindarnir hvílast. Sjálfur hafði ég ekki alltof mikla trú á þessum textum sem vinningshandriti, en gæfan var með mér,“ segir Hjörtur og bætir við að hann vilji koma því á framfæri að það sé virðingarvert að borgin standi enn fyrir þessum verðlaunum á miklum niðurskurðartímum þar sem sótt er að menningunni, bæði til að heiðra minningu Tómasar Guðmundssonar sem og að stuðla að grósku í íslenskri ljóðlist.

Í umsögn dómnefndar segir einnig um Alzheimer-tilbrigðin: „Þessi tilfinning kemur ekki síst fram í beinskeyttum upphafslínum bókarinnar þegar ljóðmælandi hefst handa við að lýsa sjúkdómnum og áhrifum hans, en þar er sleginn sá mjúki sorgartónn sem einkennir verðlaunabókina Alzheimer-tilbrigðin: „Það gerðist bara.““

Hjörtur Marteinsson er fæddur í Reykjavík 1957 og er með B.A. próf í íslensku og M.A. próf í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands ásamt kennsluréttindum frá sama skóla. 

Hjörtur hefur gefið út tvær ljóðabækur, Ljóshvolfin 1996 og Myrkurbil 1999 og árið 2000 hlaut hann líka Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, en þá fyrir skáldsöguna AM 00. Ljóðstaf Jóns úr Vör hlaut hann árið 2004. Meðfram skrifum kennir hann nú íslensku á unglingastigi við Árbæjarskóla í Reykjavík og nemur ritlist við Háskóla Íslands.


Hjörtur hefur einnig lagt stund á myndlist og haldið sex einkasýningar hér innanlands og tekið þátt í tveimur samsýningum með sambýliskonu sinni, Guðbjörgu Lind Jónsdóttur listmálara. Stendur önnur sýningin nú yfir í Listasafni Ísafjarðar.

Þau Guðbjörg eiga þrjá syni og hlaut sá í miðið, Dagur Hjartarson, bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2012.

Í dómnefnd sátu Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir, Bjarni Bjarnason og Davíð Stefánsson formaður nefndarinnar. Alls bárust 48 handrit að þessu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert