Í ár hugðist RÚV tryggja að 50% þeirra laga sem valin yrðu til að keppa í undanúrslitum Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefðu að minnsta kosti eina konu í höfundarteymi sínu. Mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum og hafa aðdáendur keppninnar misjafnar skoðanir og var að endingu fallið frá breytingunni.
Í kvöld birti Eurovisionfarinn Greta Salóme pistil um kynjakvótann á Facebook síðu sinni. Segist hún hafa fylgst með umræðunni síðustu daga og hnýtt sérstaklega í fyrirsögnina „Niðurlægjandi fyrir tónlistarkonur“ sem hún segir að hafi verið ríkjandi. Gréta segir að henni finnist nokkur önnur atriði en kynjakvótar í Eurovision eiga betur heima undir áður nefndri fyrirsögn.
„Samkvæmt nýlegri rannsókn, gerðri frá Háskóla Íslands renna yfir 90 % allra stefgjalda til tónlistarkarla en undir 10% til tónlistarkvenna. Þessar tölur endurspegla útvarpsspilun, sjónvarpsframkomur osfrv,“ segir Greta í upptalningu sinni.
Hún nefnir einnig ójöfn kynjahlutföll þáttastjórnenda í útvarpi og að engin íslensk tónlistarkona eigi lag sem stendur á topp 20 lista Bylgjunnar. Hún bendir á að á topp 30 lista Rásar 2 sé aðeins eitt íslenskt lag undir nafni tónlistarkonu og þrjú lög þar sem kona er meðlimur hljómsveitar eða ein af flytjendum.
„Á stærstu útihátíð Íslands, Þjóðhátíð, var hlutfall flytjenda árið 2013 5% og í ár um 5,5%. Svona mætti lengi telja,“ skrifar Greta.
Greta segir kynjakvótaregluna í Söngvakeppninni ekki hafa verið þess eðlis að hún myndi hafa úrslitaáhrif á tónlistarsköpun kvenna.
„En það er búið að falla frá reglunni um kynjahlutföllin í Söngvakeppninni þannig að allir geta andað léttar því að nú sitja allir við sama borð. Eða hvað?“
Hægt er að lesa pistilinn í heild sinni hér.