Skullu á bíl sem þveraði hjólastíg

Hjólreiðamennirnir skullu báðir á vörubifreið sem þveraði hjólreiðastíg.
Hjólreiðamennirnir skullu báðir á vörubifreið sem þveraði hjólreiðastíg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tveir hjólreiðamenn slösuðust, annar talsvert meira en hinn, þegar þeir skullu á vörubifreið sem þveraði reiðhjólastíg við Suðurlandsbraut í síðustu viku. Hjólreiðamennirnir voru á fullri ferð þegar þeir sáu skyndilega bíl á stígnum. 

Í tilkynningu á vef lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að ökumaðurinn hafi hægt á sér, ekki séð neinn og ekið af stað. Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. 

Bifreið var ekið um Kópavogsbraut og ætlaði ökumaður hennar að aka fram úr hægfara bifreið sem beygði þá til vinstri í veg fyrir hann. Við það fipaðist ökumaðurinn og beygði frá, en bifreiðin hafnaði á tré á móti húsi í götunni. Farþegi kvartaði vegna mikilla áverka í baki og var hann fluttur á sjúkrahús. 

Þá var bifreið bakkað úr stæði á Seltjarnarnesi á gangandi vegfaranda sem féll við það í jörðina. Um minniháttar samstuð var að ræða en vegfarandinn fékk skrámur á handlegg og fór á heilsugæslustöð til skoðunar.

Átta ára drengur féll af reiðhjóli við Nýbýlaveg í Kópavogi eftir að hafa hjólað niður göngustíg frá Hjallabrekku. Hann missti stjórn á hjólinu þegar hann fór niður grasbrekku við hliðina á tröppum á göngustígnum meðfram stofnbrautinni. Drengurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Strætisvagni var ekið aftan á fólksbifreið á Vesturlandsvegi við Víkurveg og kastaði henni aftan á aðra fólksbifreið sem var þar fyrir framan.  Einn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert