Telja Íslendinga áreiðanlega vini

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Zhang Weidong, sendiherra Kína.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Zhang Weidong, sendiherra Kína. Ljósmynd/Forsetaembættið

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, kallaði eftir aukinni tvíhliða samvinnu Íslands og Kína á sviði efnahagsmála, viðskipta, menningarmála, Norðurslóðamála og endurnýjanlegrar orku þegar hann tók við trúnaðarbréfi nýs sendiherra Kína á Íslandi, Zhang Weidong, í vikunni. Þetta kemur fram á fréttavef kínverska dagblaðsins China Daily.

Fram kemur í fréttinni að Zhang hafi lýst yfir ánægju sinni með framlag Ólafs til tvíhliða samskipta landanna. Tengslin við Ísland væru kínverskum stjórnvöldum mikils virði. Sendiherrann sagði Kínverja litu á Íslendinga sem áreiðanlega og góða vini og samstarfsaðila í Evrópu. Sagði hann það heiður fyrir sig að vera falið að gegna embætti sendiherra á Íslandi á tímum þegar samskipti þjóðanna yrðu sífellt meiri. Lýsti hann vilja sínum til þess að taka virkan þátt í því með íslenskum stjórnvöldum að auka þessi samskopi enn frekar.

Fram kemur á vefsíðu forsetaembættisins að Ólafur og Zhang hafi rætt um vaxandi samstarf landanna tveggja, samning þeirra um fríverslun sem tók gildi fyrr á þessu ári, aukna nýtingu jarðhita í þágu hitaveitna í Kína auk rannsókna á þróun íss og jökla á Norðurslóðum. Einnig hafi verið rætt um sölu á matvælum til Kína sem og samvinnu á sviði lista og menningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert