Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti í gær að senda umræðuskjal til aðildarfélaga ASÍ um hluthafastefnur lífeyrissjóða og launakjör stjórnenda í fyrirtækjum í þeirra eigu.
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, sagði að loknum fundi miðstjórnarinnar á Akureyri, að nú verði það verkefni um 300 þingfulltrúa sem sækja 41. ársþing ASÍ 22.-24. október að komast að niðurstöðu „og er þetta upplegg ætlað til að styðja þá við það vandasama verk“.
„Ég gef mér það að það sé fullur stuðningur við að sett verði einhvers konar viðmið. Útfærslan er flóknara mál og ég þori ekki að fullyrða um það nákvæmlega hver sú niðurstaða verður,“ segir Halldór í Morgunblaðinu í dag.