Börnin á leikskólanum Ástúni á Breiðdalsvík dvelja innandyra í dag vegna mengunar á svæðinu sem berst frá gosstöðvunum í Holuhrauni.
Á Facebook-síðu Almannavarna ríkisins kemur fram að dimmt sé yfir í Breiðdalnum, fólk hafi fundið fyrir ertingu í augum og öndunarfærum og því sé nauðsynlegt að börn og þeir sem eru með asma eða aðra undirliggjandi sjúkdóma haldi sig innandyra á meðan mengunin gengur yfir.
Guðný Jónasdóttir, leikskólastjóri á Ástúni, segir að börnin hafi farið út í morgun. Þá hafi mengunarinnar ekki verið vart en síðan fór að blása og glittir nú aðeins í útlínur fjallanna í gegnum bláa móðu.
Guðný segir að starfsmennirnir hafi ekki mikið fundið fyrir menguninni en þegar í ljós kom að gildin voru orðin há og mengunin var sýnileg á svæðinu var ákveðið að hafa börnin inni í dag. Sex börn eru leikskólanum.
Þetta er í annað skiptið sem starfsmennirnir hafa þurft að hafa börnin inni vegna mengunar frá því að gosið hófst fyrir rúmum mánuði.