Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, setti sig í spor unglingsstúlkna í þróunarríkjum með því að bera 10 lítra vatnsfötu á höfðinu á Austurvelli í dag en uppákoman var þáttur í kynningarátakinu Sterkar stelpur - sterk samfélög, á stöðu stúlkna í fátækustu ríkum heims. Hún skorar á Björk Guðmundsdóttur söngkonu, Birnu Einarsdóttur bankastjóra Íslandsbanka og Sigríði Björk Guðjónsdóttur nýskipaðan lögreglustjóra að gera hið sama.
Í tilkynningu vegna átaksins kemur fram að:
Rannsóknir síðustu ára hafa annars vegar sýnt að unglingsstúlkan er einn höfuðlykill að því að uppræta fátækt í heiminum. Hins vegar að staða unglingsstúlkna er víða skelfileg þar sem þær verða fyrir mannréttindabrotum og mismunun vegna kyns og aldurs. Jafnframt felur átakið í sér hvatningu til allra stúlkna um að standa á rétti sínum og láta rödd sína heyrast, hátt og snjallt.
Á hverjum degi upplifa milljónir stúlkna að raddir þeirra séu kæfðar, lífi þeirra ógnað, réttindi þeirra fótum troðin, frelsi þeirra takmarkað – einungis vegna þess að þær eru stelpur. Með kynningarátakinu Sterkar stelpur – sterk samfélög vilja aðstandendur vikunnar að íslenska þjóðin sendi stúlkum sem búa við brot á mannréttindum skilaboð um að þær standi ekki einar.