Fyrstu þrír dagar aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og þremur fyrrverandi starfsmönnum sama banka hafa farið í skýrslutökur yfir mönnunum í forgrunni þeirra meintu markaðsmisnotkunar sem ákært er fyrir. Þeir segjast aðeins hafa farið að fyrirmælum.
Sérstakur saksóknari ákærði Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumann eigin fjárfestinga sama banka, og tvo starfsmenn eigin fjárfestinga, þá Júlíus S. Heiðarsson og Sindra Sveinsson.
Allir eru þeir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.
Á umræddu tímabili keyptu eigin fjárfestingar 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlutum í Landsbankanum sem viðskipti voru með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, eða 48,4% af veltunni. Með kaupunum hafi þeir komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Landsbankanum og aukið seljanleika þeirra á kerfisbundinn hátt.
Júlíus og Sindri eiga að undirlagi Sigurjóns og Ívars, að hafa lagt í upphafi hvers viðskiptadags fram röð stórra kauptilboða með litlu innbyrðis verðbili í hlutabréf í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar. Þeir hafi keypt áfram fram eftir degi og yfirleitt keypt á háu verði undir lok dags, til að hafa áhrif á dagslokaverð hlutabréfanna.
Skýrslutökum er lokið yfir Júlíusi og Sindri hóf að svara spurningum í gær. Hann mun halda því áfram á mánudag. Þeir eru mennirnir á gólfinu, svonefndir starfsmenn á plani, sem lögðu inn þau kauptilboð sem ákært er fyrir. Samkvæmt ákæru eiga þeir hins vegar að hafa lagt inn umrædd tilboð að undirlagi Ívars og Sigurjóns.
„Sigurjón Árnason þekkti mig hvorki í sjón né þekkti hann nafn mitt á þessum tíma,“ sagði Júlíus við upphaf aðalmeðferðar og Sindri sagðist í gær aldrei hafa átt í samskiptum við bankastjórann um nokkurn hlut. Báðir sögðust þeir hins vegar hafa séð Sigurjón funda með Ívari, þeirra næsta yfirmanni, og að það hefði ekki verið óalgengt.
Mennirnir á gólfinu eru ákærðir sem aðalmenn rétt eins og Ívar og Sigurjón og það þrátt fyrir að augljóst var á yfirferð saksóknara fyrstu daga aðalmeðferðarinnar að gríðarlegur aðstöðumunur var á yfirmönnunum og Júlíusi og Sindra.
Þrátt fyrir að hafa varið miklum tíma í að greina hvern viðskiptadag hjá Júlíusi og Sindra á umræddu tímabili virðist viðleitni saksóknar beinast miklu leyti að því að fá fram með hvaða hætti þeirra næsti yfirmaður, Ívar, hafði áhrif á störf þeirra. Mikið var gert úr því að Júlíus nefndi við lögregluskýrslu að Ívar hefði staðið við bakið á honum - líkamlega - og sagt honum hvaða viðskipti ætti að ráðast í. Staðfesti Júlíus þetta fyrir dómi.
Þannig hefur saksóknari gert sér mat úr því að Ívar hafi setið til móts við þá Júlíus og Sindra en verjendur dregið úr þessu með því að benda á að Júlíus og Sindri hafi verði með fjóra skjái hvor fyrir framan sig og tvo á milli.
Júlíus var spurður út það hvernig yfirmaður Ívar væri: „Ívar var fínn yfirmaður. Ég bar fullt traust til Ívars. Hann lagði ákveðnar línur og gaf stundum sjálfstæði við að taka ákvarðanir, en þó innan þeirra lína sem hann var búinn að leggja.“
Ásamt því að verja gríðarlegum tíma í að reyna greina 228 viðskiptadaga með kauphallarhermi sérstaks saksóknara þá hefur saksóknari lagt mikla áherslu á að Júlíus og Sindri hafi lotið fyrirmælum Ívars. Ekkert hefur verið sagt um að þeir hafi fengið fyrirmæli frá Sigurjóni þrátt fyrir að í ákæru segi að „[m]arkaðsmisnotkunin var framkvæmd af ákærðu Júlíusi og Sindra að undirlagi Sigurjóns og Ívars.“
Raunar hefur Sigurjón svo gott sem varla verið nefndur á nafn þrjá fyrstu daga aðalmeðferðarinnar en hann hefur hins vegar verið viðstaddur og látið vel í sér heyra. Fyrst og fremst með hlátri.
Til þess að hnekkja á þessu atriði enn frekar þá var það verjandi Ívars sá eini sem spurði Júlíus spurninga þegar kom að spurningum verjenda. Hann spurði þá meðal annars hvort það kallaði á yfirlegu að sinna starfi hans. Júlíus sagði það svo sannarlega en hægt sé að fylgjast með upplýsingum af markaði í síma til dæmis, sé maður á hlaupum eða á fundum.
Verjandi Ívars spurði Júlíus einnig mikið út í hvaða upplýsingar hann hefði sent skjólstæðingi hans á hverjum degi og í hvaða formi.
Séu fyrstu þrír dagar þessarar aðalmeðferðar teknir saman þá er auðvelt að segja að kauphallarhermirinn hafi stolið senunni. En eftir skýringar starfsmannanna á planinu á viðskiptum þeirra og þess að þeir hafi eingöngu fengið fyrirmæli frá Ívari og þeirri áherslu sem saksóknari leggur á einmitt sömu fyrirmæli er auðvelt að sjá hvernig aðalmeðferðin þróast.
Erfiðara er hins vegar að sjá hvernig saksóknari ætlar að blanda bankastjóranum, Sigurjóni, inn í þessa meintu markaðsmisnotkun og vaknar þá helst grunur að í gögnum málsins liggi símtöl og tölvubréf sem sérstakur saksóknari telur að sýni fram á eitthvað misjafnt.
Þetta allt, og fleira til ætti að koma í ljós þegar aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans heldur áfram á mánudag.