Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn og stjórnarsamstarf flokksins og Framsóknar harðlega í ályktun sem samþykkt var á málefnaþingi SUS.
Þar kemur fram að haldi Framsóknarflokkurinn áfram að tala gegn frjálslyndum hugmyndum sjálfstæðismanna beri Sjálfstæðisflokknum að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.
Í ályktunninni segir meðal annars:
„Þegar þingmenn og ráðherrar [Sjálfstæðisflokksins] hafa talað fyrir frjálslyndum og víðsýnum hugmyndum á borð við afnám einokunarsölu ríkisins á áfengi, hugsanlegri komu verslunarkeðjunnar Costco hingað til lands, auknu frjálslyndi í fíkniefnamálum, ábyrgri stjórn í ríkisfjármálum og frekari skattalækkunum, svo eitthvað sé nefnt, hefur þeim ávallt verið mótmælt kröftuglega af framsóknarmönnum.
Vilji þingmanna Framsóknarflokksins virðist ekki standa til þess að auka frelsi einstaklingsins, heldur virðast þeir vera sannfærðir um að leið haftabúskapar, boða og banna sé hin eina rétta.
Ef sú verður áfram raunin, ber Sjálfstæðisflokknum að standa fast á hugsjónum um frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Framsóknarflokkinn.“
„Við teljum að fjármagninu hefði verið betur varið í önnur verkefni eins og að greiða niður skuldir ríkisins,“ segir Magnús Júlíusson, formaður SUS, um skuldaleiðréttinguna sem hann segir vera það mál sem hefur reynt hvað mest á samstarf flokkanna tveggja og grunn þeirrar gagnrýni sem SUS setur fram.
„Núna þegar menn eru að leggja fram frumvörp sem eru frekar lituð af hægri pólitík en vinstri, s.s. áfengi í verslanir og breytingar á skattkerfinu, þá er ótækt að þingmenn Framsóknarflokksins rísi alltaf upp á afturlappirnar,“ segir Magnús inntur eftir því hversu langt Framsókn þurfi að ganga til að SUS fari farm á stjórnarslit.
„Ef þeir ætla t.d. ekki að samþykkja þessar breytingar á skattkerfinu hlýtur samstarfinu að vera sjálfhætt. Mér þykir hinsvegar ólíklegt að þeir reyni að standa í vegi fyrir slíku frumvarpi einfaldlega vegna stöðu Framsóknarflokksins í dag.“