Ölvuð og til vandræða

Ölvað fólk var til vandræða víða á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Meðal annars par sem var handtekið á fimmta tímanum í nótt en konan, sem var í annarlegu ástandi, hafði reynt að stofna til vandræða og maðurinn er grunaður um líkamsárás. Þau gista fangageymslur líkt og fleiri nú í morgunsárið. Maðurinn sem varð fyrir árásinni þurfti að leita sér aðstoðar á bráðamóttöku en hann er líklega nefbrotinn.

Á tólfta tímanum voru tveir ölvaðir ferðamenn handteknir í miðborginni eftir að kvartanir bárust um að þeir væru með ólæti og að brjóta rúðu í bifreið. 

Annar maðurinn er einnig grunaður um ölvun við akstur. Mennirnir eru vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Lögreglumenn handtóku ölvaða konu skömmu eftir miðnætti við Smárann. þeir höfðu ætlað að koma konunni heim en hún vildi ekki gefa upp kennitölu eða heimilisfang. Konan var færð á lögreglustöð og vistuð í fangageymslu meðan ástand hennar lagast.

Lögreglan handtók síðan konu í Austurstræti skömmu fyrir eitt í nótt þar sem hún lá ósjálfbjarga vegna ölvunar í götunni. Hún gat lítt tjáð sig vegna ástands síns og gistir fangageymslur þar til ástand hennar skánar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert