„Fullkomlega eðlileg framkvæmd“

Aðalmeðferðin fer fram í sal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Aðalmeðferðin fer fram í sal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Kauphallarhermirinn var áfram í aðalhlutverki á fjórða degi aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn fjórum fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans sem hófst í morgun. Sindri Sveinsson, fyrrverandi starfsmaður eigin fjárfestinga, hefur setið fyrir svörum.

Sindri hóf að gefa skýrslu sl. föstudag eftir að skýrslutöku af Júlíusi S. Hreiðarssyni, fyrrverandi starfsmanni eigin fjárfestinga bankans, lauk, en hún hafði þá samtals staðið yfir í 22 klukkustundir.

Morgunninn hófst á viðskiptum þann 2. maí 2008 og hefur verið spurt út í viðskipti sem Sindri stundaði til 15. september, en nú er hádegishlé.

Óhætt er að segja að dagurinn hafi farið mjög rólega af stað, en áfram var farið yfir viðskipti sem Sindri átti í hverjum mánuði yfir sig. Aftur á móti var yfirferðin sneggri en hún var í byrjun aðalmeðferðarinnar í síðustu viku.

Sindri hefur verið spurður út í sín viðskipti frá byrjun maí 2008. Rauði þráðurinn í svörum Sindra var að hann hefði stundað eðlileg viðskipti með kaup- og sölutilboð. Spurður út í tiltekin viðskipti frá 5. maí sagði hann m.a. að þetta „telst vera fullkomlega eðlileg framkvæmd um allan heim.“ Ummælin eru í takt við þau svör sem Sindri veitti við spurningum saksóknara.

Hann minnti jafnframt á að það væru rúm sex ár liðin frá þessum viðskiptum og þar af leiðandi væri minnið gloppótt. Þá benti hann á að ótal ástæður gætu legið að baki því að menn áttu viðskipti, greiningar og fjölmiðlaumfjöllun gat m.a. haft áhrif á viðskipti dagsins.

Sex ár frá hruni

Vert er að minnast þess, að í dag 6. október, eru liðin sex ár frá efnahagshruninu. Þetta er dagurinn sem Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð um að blessa Ísland og Alþingi samþykkti neyðarlögin svokölluðu. Fjármálaeftirlitið ákvað svo að kvöldi 7. október að taka yfir rekstur Landsbankans.

Sér­stak­ur sak­sókn­ari ákærði Sig­ur­jón Árna­son, fyrr­ver­andi banka­stjóra Lands­bank­ans, Ívar Guðjóns­son, fyrr­ver­andi for­stöðumann eig­in fjár­fest­inga sama banka, og tvo starfs­menn eig­in fjár­fest­inga, þá Júlí­us S. Heiðars­son og Sindra Sveins­son.

All­ir eru þeir ákærðir fyr­ir markaðsmis­notk­un á tíma­bil­inu 1. nóv­em­ber 2007 til 3. októ­ber 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa hand­stýrt verðmynd­un hluta­bréfa í Lands­bank­an­um og með því blekkt fjár­festa, kröfu­hafa, stjórn­völd og sam­fé­lagið í heild.

Júlí­us og Sindri áttu að und­ir­lagi Sig­ur­jóns og Ívars, að hafa lagt í upp­hafi hvers viðskipta­dags fram röð stórra kauptil­boða með litlu inn­byrðis verðbili í hluta­bréf í Lands­bank­an­um í til­boðabók Kaup­hall­ar­inn­ar. Þeir hafi keypt áfram fram eft­ir degi og yf­ir­leitt keypt á háu verði und­ir lok dags, til að hafa áhrif á dags­loka­verð hluta­bréf­anna.

„Fer að nálgast sumarfrí“

Skilja mátti Ragnheiði Harðardóttur dómsformann á þá leið í morgun að betri skriður væri kominn á yfirferð saksóknara í gegnum kauphallarherminn þegar komið var að 27. júní 2008, en þá sagði hún: „Það fer að nálgast sumarfrí.“ Ragnheiður útskýrði svo að samkvæmt dómsskjölum hefði Sindri tekið sér sumarfrí 1. júlí 2008. Það þýddi að yfirferðin  styttist sem því nam, en Sindri sneri aftur til vinnu 21. júlí.

Sindri heldur því fram að ekkert annað en viðskiptalegar forsendur hafi legið á bak við þeim kaup- og sölutilboðum sem hann kom á að umræddu tímabili.

Alls hafa sex hleraðar upptökur verið leiknar í salnum, samtöl við þrjá verðbréfamiðlara og starfsmann eigin fjárfestinga bankans. Einnig hefur verið vísað í ein tölvupóstsamskipti, sem Sindri hefur verið beðinn um að útskýra.

„Það er verið að reyna að finna brotið,“ heyrðist Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns Árnasonar, segja í dómssal í morgun þegar Reimar Snæfells Pétursson, verjandi Sindra, gagnrýndi kauphallarhermi saksóknara, þ.e. hann gerði  athugasemdir við að hann væri ekki ekki ávallt að sýna réttar upplýsingar. Þrátt fyrir að flestir virðist vera búnir að átta sig á því hvernig hann virkar hafa verið gerðar athugasemdir við þær upplýsingar sem hann birtir.

Skýrslutaka af Sindra heldur áfram klukkan 13 og mun henni ljúka í dag. Þá mun Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta bankans, gefa skýrslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert