Mikilvægt að kona gegni embættinu

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Eggert Jóhannesson

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði á Alþingi síðdegis að þrjár ástæður væru helstar fyrir því að Sigríður Björk Guðjónsdóttir var færð frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og yfir á höfuðborgarsvæðið. Þar á meðal að hún hafi talið mikilvægt að kona gegndi embættinu.

Skipun Sigríðar Bjarkar í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var til umræðu á þingi í dag en það var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem spurði Hönnu Birnu út í málið. Hann spurði meðal annars út í það hver rökin hefðu verið fyrir því að beita ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 51/2014 og af hverju embættið hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar þar sem ekki var um nýtt embætti að ræða.

Árni Páll sagði að eingöngu hefði mátt beita umræddri bráðabirgðaheimild þegar um er að ræða ný embætti lögreglustjóra. „Hér er ekki um að ræða nýtt embætti. Það var til, losnaði og sá sem skipaður var hafði gegnt lögreglustjóraembætti annars staðar. [...] Mér sýnist bráðabirgðaheimildin ekki duga til.“

Misskilningur Árna Páls

Hanna Birna sagði fyrirspurn Árna Páls byggða á misskilningi. Umræddu bráðabirgðaákvæði hafi alls ekki verið beitt, enda hafi það ekki verið mögulegt. Sigríður Björk hafi verið flutt til á grundvelli 36. grein starfsmannalaga. Í henni segir: „Stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, getur flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það. Enn fremur getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, samþykkt að hann flytjist í annað embætti er lýtur öðru stjórnvaldi, enda óski það stjórnvald eftir því.“

Hún sagði að þessi heimild væri mjög skýr og benti á að bæði Árni Páll og Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefðu beitt henni þegar þau voru ráðherrar til að færa ráðuneytisstjóra á milli ráðuneyta. „Þessi heimild er mjög skýr. Hún hefur ítrekað verið nýtt og er vel þekkt. Bæði þegar um er að ræða lögreglustjóra og aðra embættismenn.“

Þrjár ástæður helstar

En til að svara Árna Páli betur nefndi Hanna Birna þrjár ástæður fyrir því að hún færði Sigríði Björk yfir á höfuðborgarsvæðið. „Í fyrsta lagi má nefna að Sigríður Björk Guðjónsdóttir sýndi mikla ráðdeild í rekstri embættisins á Suðurnesjum. Hún tók þar við erfiðu búi en náði að snúa rekstrinum til betri vegar innan þess tíma sem ætlast var til.

Í öðru lagi taldi ég afar mikilvægt, og tel það mjög mikilvægt, að áherslur hennar í baráttunni gegn heimilisofbeldi ásamt eflingu rannsókna á kynferðisofbeldismálum fengju sérstaka athygli hér á höfuðborgarsvæðinu.

[...]

Í þriðja lagi taldi ég mikilvægt að kona yrði skipuð lögreglustjóri hér á höfuðborgarsvæðinu, en aldrei áður hefur kona gegnt því mikilvæga embætti og þetta er því í fyrsta skipti sem það gerist.“

Sá ekki rök Hönnu Birnu

Árni Páll var ekki sáttur við þessi svör og sagði að Hönnu Birnu hefðu verið í lófa lagið að auglýsa stöðuna. „Það er heimild en það þurfa að vera efnisrök til að beita henni. Ég sé ekki efnisrökin í þessu tilviki. Hér er eitt af mikilvægari embættum í réttarvörslukerfinu og það skiptir máli að tryggja hlutleysi þess frá hinum pólitíska valdi.“

Í lok umræðunnar svaraði Hanna Birna orðum Árna Páls. „Mér finnst það pínulítið sérkennilegt, og ég ætla að segja það hér, að háttvirtur þingmaður, í fyrsta skipti sem við færum konu á milli með þessum hætti, að það skuli vera gert að sérstöku máli hér í þingsal.“

Umræðuna má horfa á hér að neðan.

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert