Saksóknari sendur berhentur í hringinn

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Er meiningin að senda sérstakan saksóknara berhentan í hringinn á móti þessum aðilum? Það er enginn niðurskurður hinum megin. Ég hef ekki orðið var að fækkað hafi í lögfræðingahirðinni sem er að takast á við sérstakan saksóknara í dómsölum. Verður ekki að tryggja réttaröryggi í landinu, meðal annars með því að sjá til þess að saksóknari búi við sómasamleg starfskjör?

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag þar sem hann spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, um fjárframlög til embættis sérstaks saksóknara samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Sagði Steingrímur að fyrirhuguð fjárframlög til embættisins gerðu því einungis kleift að sinna þeim málum sem þegar væru komin til kasta dómstóla.

„Það er alger óþarfi fyrir hann að reyna að ala á tortryggni eða búa til æsing eða gefa í skyn að menn ætli á einhvern hátt að veikja réttarkerfið. Þvert á móti, með þeirri vinnu sem nú stendur yfir, stendur til að styrkja fyrirkomulag ákæruvalds á Íslandi. Þar verður að sjálfsögðu staða sérstaks saksóknara og þeirra mála sem þar eru til vinnslu tekin með í reikninginn,“ svaraði Sigmundur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert