Störfum hjá ríkinu fækkar um 11%

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg Jim Smart

Störfum hjá ríkinu hefur fækkað um 10,6% frá 2008. Ef litið er aftur til aldamóta má sjá að starfsmönnum ríkisins hefur fjölgað um 5,6% frá árinu 2000 á meðan fjöldi starfandi á vinnumarkaðnum öllum hefur aukist um 11,8%. Tölurnar eru byggðar á upplýsingum frá Hagstofunni og fjármálaráðuneytinu, segir í frétt á vef BSRB.

Segja fullyrðingar Viðskiptaráðs rangar

„Þessar upplýsingar stangast á við fullyrðingar Viðskiptaráðs sem nýverið efndi til fundar um stöðu og horfur í ríkisfjármálum. Þar kom fram að ríkisstarfsmönnum hefði fjölgað um 29% frá aldamótum. Einnig var tekið fram að aðhaldsaðgerðir síðustu ára hefðu ekki fækkað starfsmönnum ríkisins frá 2008 til 2014 um nema 3%. Þessar fullyrðingar eru rangar.

Ef fækkun starfsmanna ríkisins frá því í kringum efnahagshrunið er skoðuð má sjá að þeim hefur fækkað til muna. Árið 2008 var fjöldi stöðugilda hjá ríkinu alls 18.500 en árið 2014 voru þau orðin 16.600. Það er fækkun um 1.900 stöðugildi eða um 10,6%,“ segir í frétt BSRB.

Stöðugildin 16.600 talsins

„Þegar litið er aftur til aldamóta sést að meðalfjöldi stöðugilda hjá ríkinu árið 2000 var 15.700 samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu. Árið 2014 voru stöðugildin orðin 16.600 sem gerir um 5,6% frá aldamótum. Á sama tímabili hefur fjöldi starfandi á vinnumarkaði öllum aukist um 11,8% og fólksfjölgun í landinu hefur verið 16,7%.

Fullyrðingar um gríðarlega fjölgun ríkisstarfsmanna frá aldamótum og að aðhaldsaðgerðir ríkisins frá efnahagshruni hafi lítil áhrif haft á fjölda ríkisstarfsmanna eru því með öllu ósannar. Staðreyndir málsins eru að ríkisstarfsmönnum hefur fækkað til muna á síðustu sex árum samhliða miklum niðurskurði á þeirri þjónustu sem ríkið kýs að veita íbúum landsins.

Það er skýr krafa BSRB að umræða um hagræðingu í rekstri ríkisins og skynsamlega ráðstöfun á fjármunum verði að byggja á staðreyndum en ekki fullyrðingum byggðum á rangfærslum, sem virðast vera settar fram í þeim tilgangi að réttlæta frekari niðurskurð,“ segir í frétt BSRB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert