Foreldrar ekki grimmir þrátt fyrir umskurð

Pernille segir foreldra sem láta umskera dætur sínar ekki vera …
Pernille segir foreldra sem láta umskera dætur sínar ekki vera grimma. AFP

Á hverjum degi ganga rúmlega 39 þúsund stúlkur sem ekki hafa náð 18 ára aldri í hjónaband. Giftingin er oftar en ekki ólögleg og telja foreldrarnir oft að þeir séu að gera það besta fyrir dóttur sína. Þetta segir Pernille Fenger, framkvæmdastjóri UNFPA  á Norðurlöndunum, er aðalræðumaður baráttufundar sem fer fram í Hörpu á morgun, en fundurinn ber yfirskriftina Sterkar stelpur – sterk samfélög.

Pernille ræddi við blaðamann mbl.is um nauðungarhjónabönd ungra stúlkna og limlestingar á kynfærum ungra stúlkna í heiminum en hún mun leggja erindi á þessi tvö málefni á fundinum á morgun þar sem hún ræðir um áskoranir unglingsstúlkna í þróunarlöndunum.

Vilja gera það besta fyrir stúlkurnar

Foreldrar stúlkna sem ganga ungar í hjónaband eða ákveða að láta umskera dætur sínar telja sig vera að gera það sem er best fyrir þær. Fjölskyldurnar eru oftar en ekki fátækar, geta ekki gefið stúlkunum að borða og halda að með því að finna handa þeim eiginmann sem muni vernda þær og sjá fyrir þeim séu þau að gera það besta fyrir dóttur sína.

Stundum er hjónabandið þó aðeins vegna hefðar sem verið er að fylgja eftir, hefð sem hefur verið viðhaldið í langan tíma, jafnvel í margar aldir.

„Við göngum allavega út frá því að foreldrarnir telji að þau séu að gera það sem er best fyrir börnin þeirra en oft hafa þau ekki upplýsingarnar og möguleika til að virða réttindi barnsins. Við erum að vinna í því að breyta því,“ segir Pernille.

Ekki hæf til að giftast ef hún er ekki skorin

Hið sama gildir um limlestingar á kynfærum kvenna. Pernille segir að UNFPA vinni með UNICEF að verkefni í 17 löndum í Afríku þar sem kynfæri stúlkna eru enn sködduð. „Þetta eru ekki grimmir foreldrar. Ef stúlkan er ekki skorin, þá er hún ekki hæf til að giftast, þá mun hún ekki lifa góðu lífi,“ segir Pernille um viðhorfin sem ríkja í þessum löndum.

Unnið hefur verið að því að veita upplýsingar, ræða við fjölskyldurnar, trúarleiðtoga og heilbrigðisstarfsfólk á svæðinu og hafa nú 12.700 manns í þessum löndum sagt að þau ætli ekki lengur að skera stúlkur á þennan hátt.

„Smá saman hafa þau áttað sig á því að þetta er brot á mannréttindum stúlknanna, þetta er sársaukafullt og þetta hefur gríðarleg áhrif á heilsu stúlknanna, bæði andlega og líkamlega og þessu er hægt að breyta,“ segir Pernille. „Þetta snýst allt um upplýsingar, menntun og aðgang að þjónustu.“

Pernielle segir að samtökin sjái þegar mun, að hjónaböndum ungra stúlkna fari fækkandi, en þetta muni þó taka tíma.

Reyna á ná stúlkunum út af heimilunum

Á degi hverjum eignast  5.000 stúlkur undir 15 ára aldri í heiminum barn. „Þetta eru stúlkur sem ættu að vera í skólanum og að leika sér með vinum sínum. Í staðinn eru þær fastar í hjónabandi,“ segir Pernille. 

Meðal þess sem gert er til að ná til stúlkna sem hafa gifst ungar er að fara á heimili þeirra og ræða við þær, eiginmenn þeirra og tengdaforeldra en hjónin flytja oft inn á heimili foreldra mannsins.

Stundum er hægt að komast að samkomulagi við fjölskylduna um að stúlkan fái að fara út í nokkrar klukkustundir á daginn til að fara í skólann, til að læra handiðn eða annað. „Þegar þær hafa upplýsingar, peninga og þekkingu eru þær í allt annarri stöðu,“ segir Pernille.

Oft er þó erfitt að finna stúlkurnar. Þær dvelja gjarnan í bakgarðinum þar sem þær elda og vinna önnur störf. Þegar stúlkurnar komast út af heimilinu, í skóla eða á aðra staði þar sem þær fá fræðslu, er til dæmis hægt að segja þeim frá því að eiginmaður þeirra megi ekki beita þær ofbeldi.

„Við þurfum stuðning svo við getum fengið fólk sem býr á svæðinu til  að fara og ná til þessara samfélaga en stundum getur vinnan tekið tvö til þrjú ár. Það er ekki eins og þetta sé ein heimsókn og þá ákveði fólkið skyndilega að hætta að skera stúlkurnar,“ segir Pernille. „Þetta tekur langan tíma.“

Umskurðurinn tengist ekki trúarbrögðum

Pernille bendir á að umskurður stúlknanna tengist ekki trúarbrögðum, líkt og margir halda eflaust. „Þetta er hefð sem nær margar aldir aftur í tímann til faróanna, áður en trúarbrögðin kristni og íslam urðu til,“ segir hún.

Sumir trúarleiðtogar vísa aftur á móti í trúarrit og halda áfram að stuðla að því að stúlkurnar séu umskornar og segir Pernille því mikilvægt að ná til trúarleiðtoganna, sem og kennara og heilbrigðisstarfsmanna. Hún segir að stúlkur hafi verið umskornar í tvö til þrjú þúsund ár en samtökin séu vongóð um að aðeins taki eina kynslóð til viðbótar að útrýma þessari hefð.

Þá segir Pernille einnig að fleiri en 220 milljónir kvenna í þróunarlöndunum vilji ekki eignast börn en noti ekki getnaðarvarnir. Ástæðurnar séu margar, til að mynda að þær hafi ekki upplýsingar sem þær þurfa, eigi ekki peninga, séu hræddar við aukaverkanir og megi kannski ekki nota getnaðarvarnir.

„Þetta eru miklar áskoranir en við erum vongóð. Við verðum að tryggja að stúlkurnar geti áfram verið ugnar stúlkur. Þær eiga ekki að eignast börn þegar þær eru enn börn, það er gróft brot á mannréttindum þeirra,“ segir Pernille að lokum.

Hér má finna upplýsingar um baráttufundinn sem fer fram í Hörpu á morgun. 

Heimasíða UNFPA

Pernille Fenger er framkvæmdastjóri UNFPA, Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndunum.
Pernille Fenger er framkvæmdastjóri UNFPA, Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndunum. Úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert