Frosti fannst eftir 3 ár

Það voru svo sannarlega fagnaðarfundir þegar fresskötturinn Frosti hitti eigendur sína á nýjan leik eftir þrjú ár á vergangi í félagsskap villikatta. Eigendurnir voru búnir að gefa upp alla von á að finna Frosta á ný og ætluðu ekki að trúa sínum eigin augum þegar Frosti birtist á Facebook-síðu félagsins Villikettir.

Dýraverndunarfélagið Villikettir var stofnað í byrjun árs til þess að standa vörð um dýravernd fyrir villta ketti á Íslandi. Félagið Villikettir hyggst leita úrbóta fyrir villta ketti hér á landi samkvæmt viðurkenndum aðferðum. Félagið ætlar sér m.a. að greiða fyrir geldingar og læknisskoðun á villiköttum.

Á Facebook-síðu félagsins var auglýst eftir eigendum Frosta, eftir að hann hafði komið í búr hjá Villiköttum. Starfsmönnum Villikatta grunaði að um týndan heimiliskött væri að ræða. Það var rétt og sá Elma, ein af eigendum Frosta auglýsinguna. Elma hafði samband við félagið og sótti hún og fjölskylda hennar Frosta í gær.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá er Frosti og fjölskylda hans hittust aftur eftir þiggja ára aðskilnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert