Vægt afbrigði af fuglaflensuveirunni H5N1 greindist í tildru sem var fönguð hér á landi í fyrra. Afbrigði af fuglaflensuveirum sem drepa kjúklinga flokkast sem svæsin.
Tildran sem var sýkt af H5N1-veirunni bar þess engin merki að vera veik, að sögn Gunnars Þórs Hallgrímssonar, dósents í dýrafræði við Háskóla Íslands. Fuglaflensusmit frá villtum fuglum er einkum talið geta ógnað heilbrigði alifugla. Ekki er vitað til þess að afbrigðið sem fannst hér geti smitast til spendýra.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að greint sé frá fundi H5N1-veirunnar og annarrar fuglaflensuveiru í fuglum hér á landi í grein í vísindaritinu Infection, Genetics and Evolution eftir Jeffrey S. Hall, Gunnar Þór Hallgrímsson og fleiri.