Vindmylla í sumarbústaðinn er eflaust eitthvað sem til þessa hefur þótt framandi hugmynd til orkuöflunar hér á landi. Sæþór Ásgeirsson, frumkvöðull, hyggst þó breyta því og hefur hannað vindmyllur sem henta minni einingum á borð við sumarbústaði, bóndabæi og heimili.
„Þetta byrjaði sem verkefni í vélarverkfræði í Háskóla Íslands. Við áttum að hanna og smíða vindhraðamæli. Ég ákvað síðar að athuga hvort vindhraðamælirinn gæti framleitt rafmagn og þetta er ávöxturinn af því,” segir Sæþór.
Hann hóf hönnunina árið 2008 og síðan hefur hugmyndin verið í þróun. Hann stofnaði svo fyrirtækið Icewind árið 2012. „Þetta hefur verið gert með skóla og annarri vinnu svo á síðasta ári fór allt á fullt. Sérstaklega eftir að við fengum góðan styrk frá Íslandsbanka. Svo fengum við góðan styrk frá Rannís sem gerði það að verkum að við gátum einbeitt okkur alveg að þessu,” segir Sæþór.
Hann segir að til standi að vera með þrjár tegundir vindmylla sem geti framleitt 600, 1000 og 1500 wött. „Það er svo misjafnt hvort fólk er að hugsa þetta fyrir ljós eða hitun,” segir Sæþór en samhliða vindmyllunni er hægt að koma upp varmadælu til upphitunar.
„Það eru margir að velta fyrir sér sparnaði og hvort að hægt sé að setja upp svona vindmyllu og varmadælu með sem getur hitað upp húsið, a.m.k. að hluta til,” segir Sæþór.
Hann segir að stefnan sé að geta boðið minnstu vindmylluna á um hálfa milljón kr, miðstærðina á um 650 þúsund og þá stærstu á um 750 þúsund kr. Allar kostnaðartölur eru þó gefnar upp með fyrirvara þar sem vindmyllurnar eru enn í þróun. Uppsetningarkostnaður er hins vegar óljós enda sé fyrirtækið ekki byrjað að selja vöruna. Hann segir að viðhaldskostnaður sé nánast ekki neinn en þumalputtareglan við orkukerfi sé um 1% á ári. „En hann á ekki að vera neinn í þessu tilviki,” segir Sæþór.
Vindmyllurnar eru hljóðlausar, þurfa ekki að snúa sér uppí vindinn. Þær eru hannaðar fyrir staðvinda svæði með framleiðslu í mjög lágum vindi 2-3m/s
Hann segir að 600 watta vindmylla geti verið nóg fyrir um 60-70 fermetra bústað. „Með varmadælu ættirðu að geta haldið húsinu heitu og fínu,“ segir Sæþór.
Sæþór segir að um 10-15 manna hópur sé ákveðinn í að fjárfesta í vindmyllunni og sé í raun eingöngu að bíða eftir því að þróunin klárist. „Ég væri mjög ánægður ef við myndum ná að byrja næsta sumar. Það er markmiðið. Þetta hefur verið mjög þolinmótt fólk,” segir Sæþór kíminn.
Ein 600 watta vindmylla hefur verið í prófun í fjögur ár í sumarbústað í Húsafelli. Þar hefur allt gengið vel. „Sá bústaður er 55 fermetrar. Hann hefur verið að fara með 220-240 þúsund krónur á ári í rafmagnskostnað. Það er í raun bara við það að halda honum 10 gráðu heitum. Ef þú ert að horfa upp á sambærilegan bústað auk varmadælu og rafgeymasett, þá ertu að horfa upp á kostnað um svona 800 þúsund krónur, en ert á móti að núlla rafmagnskostnað. Tæknilega séð ætti slíkt að vera tiltölulega fljótt að borga sig upp,“ segir Sæþór.
Hann segir að meðalvindurinn þurfi að ná 4 metrum á sekúndu að meðaltali á ári svo hægt sé að nota slíkar vindmyllur.