Langbylgjan nauðsynleg landsmönnum

Elín Hirst.
Elín Hirst. mbl.is

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokks, telur mikilvægt að fólk átti sig á mikilvægi þess að eiga útvarp með langbylgju. Það sé öryggistæki sem fólk þurf að geta gripið til komi til náttúruhamfara. Þetta kom fram í umræðum um störf þingsins í dag. 

„FM-sendar Ríkisútvarpsins ganga fyrir rafmagni, en ef rafmagnið fer af þeim eiga dísilvaraaflstöðvar við sendana að fara í gang. En komi upp þær aðstæður að ekki sé hægt að koma olíu á  sendana verða þeir að sjálfsögðu óvirkir. Verði rafmagnslaust, t.d. vegna náttúruhamfara, er því líklegt að á stórum landssvæðum verði almenningur að treysta á langbylgjusendingar útvarps til að fylgjast með upplýsingagjöf og fréttum,“ segir Elín í ræðu sinni. Segir hún umbrotin við Bárðarbungu hafi fengið hana til þess að hugsa um þessi mál.  

Útvarpstæki eingöngu með FM sendingar 

Hún bendir að á heimasíðu Ríkisútvarpsins standi að óvitlaust sé að eiga útvarp sem geti tekið á móti langbylgjumerki. „Ég held að hér þurfi að kveða mun sterkar að orði og upplýsa almenning mun betur en nú er gert,“ segir Elín.

„Ein aðal röksemdin fyrir tilveru RÚV og þeim opinberu útgjöldum sem því fylgja er öryggishlutverkið.  Ég hef því verulegar áhyggjur af því að ef hér verða meiriháttar náttúruhamfarir að fólk geti ekki reitt sig á Ríkisútvarpið, því langflest útvarpstæki sem fólk kaupir nú til dags taka aðeins á móti FM sendingum,“ segir Elín.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert