Umferðin í síðasta mánuði var mjög mikil, að mati Vegagerðarinnar, og jókst um 5,8 prósent frá september í fyrra. Þetta var umferðarmesti mánuður ársins og annar umferðarmesti mánuður frá upphafi en ríflega 140 þúsund bílar fóru um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar.
Áætlað er að umferð hafi dregist saman á Hafnarfjarðarvegi en aukist mikið um Reykjanesbraut og Vesturlandsveg. Samanlögð meðalumferð um mælisniðin þrjú var tæplega 140.200 bílar á sólarhring en sá fjöldi gerir þennan mánuð að þeim stærsta á þessu ári.
Nýliðinn mánuður er einnig næst umferðarmesti mánuður frá upphafi, en apríl 2008 heldur enn metinu. Þá fóru rúmlega 140.800 bílar á sólarhring yfir sniðin. Þessi bílafjöldi, samsvarar því að næstum hver einasti íbúi á höfuðborgarsvæðinu, á aldursbilinu 17 til 80 ára, hafi ekið einu sinni á dag, yfir sniðin þrjú.