Framlegð sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2013 var sú lakasta síðan 2005. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) lækkaði um 20% á milli áranna 2012 og 2013 og hefur hann ekki verið lægri í hlutfalli af tekjum í átta ár.
Samtímis hafa skattgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja farið vaxandi. Alls greiddu þau 21,5% af heildarsköttum ríkissjóðs á tekjur og hagnað lögaðila á árinu 2013, að því er fram kemur í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.
Þetta er meðal niðurstaðna úr greiningu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte á reikningum sjávarútvegsfyrirtækja. Byggjast þær á yfirgripsmiklum gagnagrunni sem Deloitte hefur tekið saman úr ársreikningum fyrirtækja sem ráða yfir tæplega 90% af úthlutuðum aflaheimildum.